Sunday, June 19, 2011

Dunk dunk og Doppa

Sumarið. Ég vil þamba það græðgislega. Aldrei fæ ég nóg af sumri. Aldrei fæ ég nóg sumarfrí.

Hef ráfað svolítið á götumarkaði og nytjamarkaði undanfarið og gripið eitt og annað forvitnilegt. Rakst t.d. á þennan dunk um daginn, hann var svo grómtekinn að varla sást í blikkið. Hefur greinilega verið í brúki fram að vistaskiptum, því inni í honum var plastskeið og botnfylli af kaffi.

Þegar ég skrúbbaði dunkinn, fór talsvert af lakkinu af, sérstaklega þessu rauða á lokinu. Það þótti mér leitt og langar að koma kvörtun til Ó. Johnson & Kaaber.

Kaffikvörnina erfði ég eftir ömmu mína og doppóttu mjólkurkönnuna líka. Amma skírði gjarnan hlutina sína og heitir þessi kanna Doppa dropgóða.

Að endingu vil ég minna á markað í fínu hverfi, þann 9.júlí. Þar verður margt eigulegra muna.

13 comments:

  1. Svakalega er þetta fín kvörn! Og kannan er ekki síðri.
    ég er eiginlega miður mín að komast ekki á þennan markað - en ég verð á ættarmóti á Ísafirði og því (langt) frá góðu gamni.

    ReplyDelete
  2. Takk, kvörnin og kannan eru mér hjartfólgnir gripir, enda þótti mér afar vænt um ömmu:)

    Þú kemur bara á næsta markað, það virðist varla þverfótað fyrir þeim þessa dagana...

    ReplyDelete
  3. Dásamlegt allt saman! Og kannan minnti mig á að ég ætlaði að taka myndir af könnunum mínum til að sýna þér og öðrum munablætisfélögum. Læt verða af því innan tíðar :)

    ReplyDelete
  4. Það ætla ég rétt að vona, spennt að sjá safnið.

    ReplyDelete
  5. Falleg kvörn sem þú átt. Ég á líka eina ættaða frá ömmu minni, en hún er máluð og ekki eins fín. En ég notaði hana á mínum fyrstu búskaparárum og var ein fárra sem malaði kaffi sitt heima :-)

    ReplyDelete
  6. Ég á kvörn sem er næstum eins en annað merki samt. Og systir mín á svona kaffibauk, alveg eins. Ógó flott.

    ReplyDelete
  7. Ég man eftir svona baukum á mörgum heimilum í æsku, ætli ég hafi ekki keypt dunkinn í þáhyggjukasti.

    ReplyDelete
  8. Úbbs, maður barasta skrúbbar ekki gamla bauka! Forvörðurinn innra með mér hoppar. Lakkið vill það yfirleitt alls ekki svo að fara þarf að með verulegri tillitssemi. Einkum og sérílagi þegar um er að ræða eldhúsbauka með tilheyrandi fitu frá höndum og eldamennsku en hún leysir upp lakk ef hún færi til þess nógu mörg ár.
    Afar fínir munir allir saman.

    ReplyDelete
  9. Hvernig er best að ná skít af gömlum baukum, Ella?

    ReplyDelete
  10. Ég man það varla en myndi líklega setja uppþvottalög í klút og strjúka gætilega þar sem sjá má að málningin er farin að linast, skola vel og þurrka. Alltaf matsatriði hversu langt á að ganga ef myndin er mjög flott.

    ReplyDelete
  11. Kristín í ParísJune 21, 2011 at 3:50 PM

    Þetta er allt saman mjög fallegt. Kannan er mjög girnilega mjólkurleg og nafnið dásamlegt.
    Ég skil alveg að fara offari á fitugum hlut, hef aldrei fyrirgefið mér þegar ég cif-aði (jif-aði á íslensku) alla tölustafi og merkingar af eldavél í íbúð sem ég tók á leigu með öllum viðbjóðinum frá fyrri leigjanda inniföldum.

    ReplyDelete
  12. Takk, Ella:)

    Kristín: Gott að heyra að fleiri hafa verið fljótfærir í svona málum, sætt er sameiginlegt brusskast:/

    En sumsé, ég lagði dunkinn í heitt sápuvatn og svo þegar ég þreif hann með uppþvottabursta þá fór mikið af rauða lakkinu af með skítnum. Blái liturinn þoldi meðferðina betur. Mér finnst þetta voðalega leiðinlegt, en dunkurinn er þó hreinn.

    ReplyDelete