Monday, January 24, 2011

Vera Villeroy-Bochsdóttir



Mér hefur alltaf þótt þessi litla postulínskrukka falleg, keypti hana í Fríðu frænku fyrir allmörgum árum. Svona litaspil klikkar ekki.

Lagðist nýlega í smá rannsóknir á merkingunni og komst að því að framleiðandinn er Villeroy og Boch (ótrúlega glögg kona, ég), en þessi tiltekni stimpill, merktur Wallerfangen, þýðir að krukkan var búin til á árunum 1874-1909. Krúsin, algjörlega í toppstandi, er sumsé bona fide antikgripur. Geri aðrir betur takk fyrir.

Sunday, January 16, 2011

Áttræð, blá, græn og ekkert marin

Eitt sinn á þvælingi mínum um Edinborg, mörgum árum fyrir klípuna, rakst ég á þessa könnu. Mér fannst hún býsna snotur og spáði ekki mikið í aldur og uppruna, því eins og menn vita skiptir aldur ekki máli ef kannan er pen. Eða var það konan?
Svo kólnaði jörðin og margt merkilegt gerðist. Þórdís kom í heimsókn, sá könnuna og þekkti handbragð Upsala-Ekeby á færi (án þess að kíkja á botninn). Hún benti mér á að maður gæti fengið nánari upplýsingar með því að senda póst hingað. Sem ég og gerði og fékk að vita að kanna nr. 148 hefði verið framleidd hjá Upsala-Ekeby 1930-1932. Því miður vissu þeir ekki nafn listamannsins sem var svona hrifinn af bláu og grænu.

Mig langar í kjól í þessum litasjatteringum.

Saturday, January 15, 2011

Í litlum bæ

Var búin að taka fullt fullt af myndum af fínu stöffi en þegar þær voru skoðaðar einstaklega nálægt kom í ljós að maður skyldi þurrka vel af gripum fyrir myndatöku, rétt eins og maður plokkar kótilettuleifar úr tönnum áður en smælað er framan í myndasmið.

Mér tókst þó að dusta rykið af þessum bóndabæ sem ég (og þáverandi) fengum árið 1984 þegar við giftum okkur, frá stórfrænku minni Steinunni Þorvaldsdóttur. Bærinn er allstór miðað við leirbýli, eða 25-30 sm breiður og um 15 sm hár. Man að í pakkanum voru líka falleg sængurföt með risastórum rauðum valmúum og þótti mér þetta skondin brúðkaupsgjöf. Kunni samt ekki alveg að meta bóndabæinn fyrr en löngu seinna.
Hér virðist enn á ferð óþekkti leirmaðurinn á Íslandi. Stimpillinn segir SJ, hver gæti það verið? Ekki virðist um sama leirista að ræða og þann sem bjó til lillabakkann, þótt merkingarnar séu áþekkar.

1984. Herregúd hvað er langt síðan ég var ung og vitlaus.

Wednesday, January 12, 2011

Stál stál skín á mig

Stál og tekk. Einu sinni fannst mér það ljót samsetning, en núna finnst mér það grúví. Þessa tvo gripi úr burstuðu stáli greip ég með mér hjá kristniboðunum um daginn (borgaði 500 kall fyrir). Ég fer bráðum að hafa kristnun heils þorps í Afríku á samviskunni og þykir mér það óheppileg aukaverkan munablætisins.
Bakkinn er frá Gense í Svíþjóð, framleiddur á sjöunda áratugnum og nákvæmlega eins og þessi hér. Ef maður nennti nú að setja sig í sölustellingar á netinu, gæti maður mögulega grætt fúlgur fjár...
Smjörkúpan er dönsk og veit ég ekki meira um ættir og uppruna, en hún er hér með ættleidd.

Saturday, January 8, 2011

Ignis Bellis

Jæja. Þá er ég loksins búin að prófa að kaupa dót af netinu. Fyrir valinu varð þessi sæta rjómakanna sem ég fann á vefnum etsy.com. Hún kostaði aðeins 12 dollara (um 1400 krónur) en með sendingarkostnaði fór upphæðin í 2303 spírur. Þegar ég síðan sótti pakkann á pósthúsið greiddi ég 1088 kr. í ríkissjóð (ekki veitir þeim af blessuðum) og var þá heildarupphæðin komin upp í 3391 krónu. Ekki var hún því gefins litla kannan, en það er bót í máli að mér finnst hún bæði fín og falleg.Kannan er úr bollastelli sem Eva Bladh hannaði fyrir Upsala-Ekeby Karlskrona á sjötta áratugnum. Stellið kallast Ignis Bellis. Bellis er einmitt heiti algengra sumarblóma í görðum hérlendis en í þessum brunagaddi finnst mér hreint ótrúleg tilhugsun að það muni koma vor og sumar og er ekki viss um það geti staðist.

Ekki er ég ein um að hrífast af Ignis Bellis stelli, því víða má sjá það á netinu, m.a. hér. Margt til í því sem þarna stendur, þótt ég geti ekki verið sammála öllu.

Thursday, January 6, 2011

Lillabakki




Rölti til kristniboðanna í gær og festi kaup á þessum fína öskubakka (kr.300), ásamt ákaflega lekkeru hálsbindi sem ég gaf syni mínum (hann kann ekki að meta það, en ég er sannfærð um að hann muni sjá ljósið). Þrátt fyrir ævilangt óþol fyrir hraunkeramiki, var eitthvað við öskubakkann sem tosaði í athyglina. Maður er soddan fjóluhommi inni við beinið.

Þegar Hjálmar kom heim úr vinnunni og rak augun í nýfundinn dýrgripinn, sagði hann: En fínt, hvert af börnunum þínum bjó þennan til?

Wednesday, January 5, 2011

Bjór í brandaraleir

Já, hver man ekki eftir því þegar bjórinn var leyfður, þá var nú aldeilis líf í tuskunum. Maður sá náttúrlega eftir bjórlíkinu og sonna en beit á öxlina og svolgraði í sig útlent ölgutlið.

Ónefnda leirmanninum þótti ástæða til að gera þessi merku tímamót ódauðleg með því að búa til stæðilega bjórkrús. Ég er svo hroðalega illa að mér í íslensku keramiki að ég þekki ekki merkið. Einhver?
Bjórkanna úr leir OG brandari á kostnað Hafnfirðinga, hvað viljið þið hafa það betra?

Monday, January 3, 2011

Rauður

Svona fyrst ég er komin í rauðu glerstemninguna er við hæfi að henda inn mynd af þessum gamla félaga, en hann fann ég fyrir mörgum árum í antikbúð í Edinborg. Veit ekkert um aldur og uppruna, en veit að svona vasar kallast vasaklútavasar og er þar (væntanlega) vísað til lögunar fremur en notkunar.

Vasinn minn góði er um 16 sm hár og fer vel í glugga þar sem ljósið leikur við hvurn sinn geisla.

Næst mun ég fjalla um órauðan mun. Upp á æru og trú.

Sunday, January 2, 2011

Þúsund blóm




Mig minnir að þennan fagurrauða vasa hafi ég fundið á Portobello road en er ekki viss, enda allmörg ár síðan ég rakst á gripinn. Þetta er lítill gaur, aðeins um 10 sm hár og rosalega erfitt að ná almennilegri mynd með almúgagræjunum sem ég hef yfir að ráða, held það hljóti að vera um að kenna þessari kúlulögun. Þegar ég keypti vasann var mér sagt að hann væri úr Murano gleri og þykir mér ágæt skemmtan að skoða litríkar doppurnar. Þessi aðferð við litskreytingu glers kallast "millefiori", sem þýðir á ítölsku "þúsund blóm".

Finnst ykkur að ég eigi að nenna íslenskum gæsalöppum? Ég er yfirleitt svo á kafi í munablætisvímu þegar ég hripa eitthvað niður hér að það hálfa væri nóg. Hvað um það, rauði vasinn minn er ekki "fallegur" heldur fallegur.