Friday, April 29, 2011

Vorglas

Ég nenni ekki að standa upp úr stólnum en langaði samt að skrifa um dót. Núna. Átti mynd í tölvunni af þessu fagurfætta glasi sem mér áskotnaðist nýlega fyrir skít og kanel, og þess vegna er færslan um það. Eins og Mount Everest. Because it´s there.

Einhvern daginn hyggst ég drekka úr glasinu heimatilbúinn líkjör úr krækiberjum sem tínd verða í Múlanum eða Böggvistaðafjalli.

Mount Everest má vera áfram þar sem það er mín vegna.

Thursday, April 28, 2011

Nei, formæka.

Rakst á þetta skínandi skemmtilega bretti hjá Hernum. Það vekur upp minningar um öll eldhúsborð æsku minnar. Þetta er stórt bretti, 40 sm breitt. Á því eru tekkhandföng og undir eru tekklistar með einhvers skonar koparskrúfufótum. Ef brettið er ekki retró, þá veit ég ekki hvað það hugtak þýðir.


Í sömu ferð keypti ég upptakara með ógnarlöngu tekkhandfangi. Á upptakaranum stendur Rostfritt stål og dreg ég af því þá ályktun að hann sé frá dí núrdíske lande. Ekki spyrja mig af hverju upptakaraskaft þarf að vera 30 sm langt, en það er allavega lekkert.

Tuesday, April 26, 2011

Við fyrsta portúgal

Eftir vinnu kom ég við í Góða hirðinum, eins og ég geri stundum. Þótt ég þykist sjóuð í gramsi, get ég verið skelfilega fljótfær og gripið hluti í skorti á óaðgæsluleysi. Þannig fór í dag. Var búin að gleyma að ég væri fótgangandi og rogaðist heim með hvítan blómapott á stærð við skúringafötu undir handleggnum, fulla af dóti. Hafði tvo trefla vafða um höfuð og háls og var almennt fremur asnaleg er ég paufaðist móti rokinu. Ég var Magnús Spaugstofuson.

Í gramsæðinu í dag stökk hanaparið sem sjá má á myndinni oní körfuna hjá mér. Fyglin þóttust eitthvað merkileg, sögðust vera þungavigtarhanar úr fínum málmi. Þegar ég fór að rannasaka málið kom í ljós að þetta eru nauða algengir túristahanar sem eiga sér samt sem áður býsna áhugaverða sögu. Galo de Barcelos kallast þessi litríki hani í Portúgal og ef maður fer með slíkan úr landi á það að bera manni gæfu. Vonandi að sá sem losaði sig við hanana í Góða hirðinn sitji ekki eftir gæfusnauður.
Litli sænski kertastjakinn kostaði bara 100 kall. Hann er merktur Boström Original Modell og er, já, bara snotur gripur þykir mér. Oseiseijá. Það held ég nú.

Saturday, April 23, 2011

Pjátur og tré

Ég hef aldrei á ævinni komið til Noregs, og getur varla heitið að ég hafi komið til Svíþjóðar heldur. Góssið sem hér sést hef ég gripið hér og þar á skransölum. Það er allt ættað frá fyrrnefnum Norðurlöndum.
Lítill trédiskur, merktur Norsk Husflid Engros. Svona skreyting nefnist rósamálun, ef netið lýgur ekki.
Miðinn er dottinn af þessum kertastjaka, en ég ímynda mér að hann sé norskur líka. Það sést úr flugvél að hann er handmálaður.
Tinvasinn þykir mér býsna skemmtilegur. Hann er rækilega merktur og númeraður, m.a. stendur á honum Dovre Norsk Tinn.
Í pjátrinu er vafalaust stórfínt ævintýri, en ég kann ekki á því skil. Tröllkallinn minnir mig á lukkutröllin svokölluðu, sem allir krakkar áttu á mínum æskuárum. Orginal lukkutröllin voru vönduð dönsk hönnun, en ég hef séð þau og ýmsar eftirlíkingar til sölu á Ebay.

Maður er orðinn soddan antík að það sem var hversdagslegt í æsku, þykir svalt í dag. Vildi að ég ætti ennþá eitthvað af leikföngunum mínum, en þeim er ég búin að glata og týna.

Wednesday, April 13, 2011

Bláfiskur

Það getur verið stórhættulegt að bjóða í hluti á Ebay og best að hætta að leika sér að því. Oft eru einhverjir róbotar að bjóða á móti manni (fídus sem hægt er að setja inn, kann ekki á það). En það ýfist upp í manni veiðieðlið þegar maður býður í kapp við annað fólk (eða vélmenni) á allra seinustu sekúndu áður en tíminn rennur út, tikk tikk tikk...

Fékk þennan heiðbláa fisk á $16 á uppboði. Seljandinn hélt því fram í fúlustu alvöru að þetta væri skúlptúr eftir Erik Höglund, en ég efast stórlega um að það geti staðist. Fiskurinn er ekkert merktur, en líkist sossum sumu af því sem Höglund fékkst við.
Þrátt fyrir að gripurinn sé fremur smár í samanburði við þríarma kertastjakann, er hann níðþungur.

Golfþorskar synda í sjónum, golfkúlufiskurinn minn situr úti í glugga.

Tuesday, April 12, 2011

Eitt og þetta, hitt og annað

Eftir vinnu í dag fór ég í blómapottaleit í Góða hirðinn og Herinn úti á Granda. Óttaðist mjög að Þórdís væri búin að kaupa alla pottana en fann samt nokkra. Þarf að kaupa miklu fleiri, brenndi í Europris í þeim erindagjörðum en þeir áttu enga, þannig að ég neyddist til að kaupa sokka og krembrauð.

Blómapotturinn hér fyrir ofan er merktur Ellaþóra ´95 (held ég). Þekki ekki þá listakonu, en potturinn er fallega grænn að innan.

Snotur sósukanna og djúpur diskur frá Noregi.

Þessi hljóta að kallast mánaðarglös, kannast hlustendur við svona?
Hér fyrir neðan má sjá hluta af pottunum sem ég hafði upp úr krafsinu. Dágóður slatti og ég er sátt.

Sunday, April 10, 2011

Prúttgrobb

Ég gleymdi alveg að grobba mig af því hvað ég var slyng í sölumennskunni í gær. Tvö dæmi:

Kona á sjötugsaldri handleikur rekaviðarspýtu. Á spýtuna hefur listfengur aðili málað mynd af veðurbörðum sjómanni í gulum regnstakk og með sjóhatt. Sjómaðurinn starir píreygur út í loftið. Fyrir neðan manninn stekkur lax.

"Hvað viltu fá fyrir þetta?", spyr konan (getur varla dulið aðdáun sína á spýtunni). Ég muldra (með pylsubita uppi í munninum), "bara, svona þrjúhundruð kall." Dóttur konunnar ber að og ræða þær spýtumálin drykklanga stund. Síðan byrjar konan að prútta af harðfylgi: "Myndirðu sætta þig við fimm hundruð?"

Kona í börbörrísfrakka brosir breitt þegar hún sér sækadelíska bakkann minn. Hún tekur hann upp og spyr um verð. Ég hugsa (eins og oft áður) "þrjúhundruðkall", en áður en ég nefni þá upphæð segi ég: Tja, mér þykir hann forljótur, hvað viltu gefa fyrir hann? Konan spyr óörugg: "Fimmhundruð kall?"

Eins og sjá má af þessum dæmum græddi ég fjögurhundruð krónum meira en ég átti skilið.
En hvað finnst ykkur um þennan vasa? Mér þykir hann voða kjút. Hann er ábyggilega þýskur en það er erfitt að ráða fram úr merkingunni. Enginn er fullkominn.

Í dag er dagur til að hugsa um fánýta hluti.

Saturday, April 9, 2011

Búðarkona spillir baununum

Loksins fékk ég að vera búðarkona á dótamarkaði. Það var fínt, sérstaklega að hitta sambloggara, t.d. Þórdísi, Ernu, Hörpu, Nönnu og Don Pedro (sínjor og júníor).

Ég mætti á Eiðistorg um hálf ellefu, og þá var allt orðið fullt, varla fermetri eftir til að hola niður borði. Fundum smáblett fyrir framan Vínbúðina (konan á næsta borði sagði reyndar að við mættum ekki vera þar, átévafferrarar hefðu rekið einhvern þar í burtu fyrir skömmu, en ég hlustaði ekki á múður).

Jæja. Ekki var þetta besta staðsetningin, að blasa við fólki nýkomnu úr Ríkinu, margir með þunga poka og ponku hnípnir. Út lulluðu m.a. tveir yfirmenn mínir, vona að þeir dratthalist nú til að hækka við mig kaupið. Þeir hljóta að sjá að maður er ekkert of feitur af laununum, svona fyrst maður er farinn að selja dótið sitt á torgum.
Heilt yfir var þetta fínt, en það hefði óneitanlega verið skemmtilegra að hafa einhvern með sér. Hjálmar þurfti náttúrlega að fara í eitthvert veiðimannastúss, þannig að ég stóð vaktina ein. Ekki fer maður frá borðinu, ekki til að pissa, fá sér kaffi, skoða hjá hinum eða borða. Onei. Náði samt á útleið að grípa þessa sætu skál, sem er akkúrat af réttri stærð fyrir baunir eða annað grænmeti. Merkileg annars merkingin á henni, Lukull Feuerfest. Annað hvort er skálin eldföst eða auglýsing fyrir árshátíð brennuvarga.
Ekki seldist doppótti bollinn minn, eins og mér þykir hann fallegur. Fólk kann bara ekki gott að meta, varla hræða sem spurði hvað hann ætti að kosta.
Hins vegar föluðust margir eftir peningakassanum, en hann var ekki til sölu.

Friday, April 8, 2011

Þessi litli grís fer á markað...



Fegurðin bládoppum klædd. Bollaparið, sem er á aldur við mig, verður til sölu á Eiðistorgi á morgun.

Mögulega þessi þokkafulla stytta frá Spáni líka, en hún er reyndar of verðmæt og fín með sig til að þvælast á gramsmarkaði. Hún er búin til af Nao postulínsverksmiðjunni frægu, og stimpillinn sýnir að framleiðsluárið var á bilinu 1970-1975. Senjorítan hávaxna (30 sm) er í stórglæsilegu ásigkomulagi og mundar blævænginn eins og hún hafi aldrei gert annað.

Norðmenn virðast hafa fundið upp þessa frumlegu leið til að nota ál. Fallegra en álpappír, verð ég að segja. Bakkinn er nokkuð myndarlegur, á að giska 20x20 sm (nenni ekki að mæla).Fjör fjör fjör.

Annar og enn skemmtilegri markaður fyrir þá sem unna gömlu dóti, verður að Þurá í Ölfusi þann 21.maí nk. Þar búa Rúna og Ari vinir mínir og þar verður svo gaman að jólin blikna í samanburði.

Saturday, April 2, 2011

Blómórómó

Ég er ekki viss um að Bretar séu rómantískari en aðrar þjóðir, reyndar hef ég á tilfinningunni að því sé öfugt farið. Sennilega geta þjóðir ekki verið rómantískar en tungumál geta þó hljómað órómó, t.d. finnska og hollenska. Franska hins vegar hljómar í mín eyru eins og menn séu komnir á fremsta hlunn með að geraða með tilþrifum á eldhúsborðinu.
Ég á slangur af ensku postulíni og það er löðrandi rómantískt, en jafnframt hófstillt og pent. Ætli Bretar tækju ekki dúkinn af eldhúsborðinu áður.
Sinnepskrukkan (sultukrukkan?) er blómum skrýdd og æði forn, framleidd á árunum 1906-1930. Hún er úr beina-postulíni (bresk uppfinning) en í því er svokölluð beinaska (bone ash).
Postulínsblómin eru merkt Adderley Floral Bone China. Þau standa í litlum gulum postulínsblómapotti og lifa þar sínu fíngerða postulínslífi.Þegar ég strýk rykið af þessu dóti, sé ég Catherine og Heathcliff fyrir hugskotssjónum, dúandi te-prúð í blúndukjól rykktum undir berustykki (bæði tvö). Í enskum skógi þar sem anemónur vaxa.