Saturday, April 23, 2011

Pjátur og tré

Ég hef aldrei á ævinni komið til Noregs, og getur varla heitið að ég hafi komið til Svíþjóðar heldur. Góssið sem hér sést hef ég gripið hér og þar á skransölum. Það er allt ættað frá fyrrnefnum Norðurlöndum.
Lítill trédiskur, merktur Norsk Husflid Engros. Svona skreyting nefnist rósamálun, ef netið lýgur ekki.
Miðinn er dottinn af þessum kertastjaka, en ég ímynda mér að hann sé norskur líka. Það sést úr flugvél að hann er handmálaður.
Tinvasinn þykir mér býsna skemmtilegur. Hann er rækilega merktur og númeraður, m.a. stendur á honum Dovre Norsk Tinn.
Í pjátrinu er vafalaust stórfínt ævintýri, en ég kann ekki á því skil. Tröllkallinn minnir mig á lukkutröllin svokölluðu, sem allir krakkar áttu á mínum æskuárum. Orginal lukkutröllin voru vönduð dönsk hönnun, en ég hef séð þau og ýmsar eftirlíkingar til sölu á Ebay.

Maður er orðinn soddan antík að það sem var hversdagslegt í æsku, þykir svalt í dag. Vildi að ég ætti ennþá eitthvað af leikföngunum mínum, en þeim er ég búin að glata og týna.

6 comments:

  1. Skemmtilegar andstæður; tin og tré. Ég hef verið frekar dugleg að geyma dót frá því ég var lítil og fram eftir aldri. Ég uppskar oft háð og spott fyrir vikið...en sú hlær best sem síðast hlær - ekki satt?

    ReplyDelete
  2. Ójú. Ég sé einna mest eftir forkunnarfögrum dúkkkuvagni sem frændi minn gaf mér þegar ég var 4 eða 5 ára. Þessi frændi var í siglingum, hafði keypt vagninn í útlöndum og þótti mikill dýrgripur.

    ReplyDelete
  3. Kristín í ParísApril 26, 2011 at 2:02 PM

    Þetta finnst mér meiriháttar dót. Ég á eitthvað af dóti frá því í denn (t.d. sprellikallinn), en mest af því er einmitt það sem ég fékk frá mömmu og pabba. Dúkkuna mína á ég samt, en fékk aldrei barnavagn undir hana, bara litla fína bastkörfu á hjólum sem ég held að hafi verið notuð í tætlur af frændsystkinum, en gæti þó verið einhvers staðar á lífi (soddan safnarapakk í famelíunni).

    ReplyDelete
  4. Dovre er auðvitað úr Dofrafjöllunum þar sem tröll, álfar og ýmsar vættir búa. Þetta veit ég úr þykkum doðröntum norskra ævintýra sem til voru hjá móðurbróður mínum og lesnir voru í tætlur þegar ég var búin með bókasafn heimilisins um 7 ára aldur. Þetta voru nú íslenskar þýðingar - ég var ekki alveg komin með norskuna á hreint - og ég get ekki fyrir mitt litla líf munað hvað Jónas Árnason norðmanna hét, hverjum doðrantarnir voru merktir. Ester

    ReplyDelete
  5. Amundsen og Moe! Þetta kom í nótt :) Ester

    ReplyDelete