Wednesday, April 13, 2011

Bláfiskur

Það getur verið stórhættulegt að bjóða í hluti á Ebay og best að hætta að leika sér að því. Oft eru einhverjir róbotar að bjóða á móti manni (fídus sem hægt er að setja inn, kann ekki á það). En það ýfist upp í manni veiðieðlið þegar maður býður í kapp við annað fólk (eða vélmenni) á allra seinustu sekúndu áður en tíminn rennur út, tikk tikk tikk...

Fékk þennan heiðbláa fisk á $16 á uppboði. Seljandinn hélt því fram í fúlustu alvöru að þetta væri skúlptúr eftir Erik Höglund, en ég efast stórlega um að það geti staðist. Fiskurinn er ekkert merktur, en líkist sossum sumu af því sem Höglund fékkst við.
Þrátt fyrir að gripurinn sé fremur smár í samanburði við þríarma kertastjakann, er hann níðþungur.

Golfþorskar synda í sjónum, golfkúlufiskurinn minn situr úti í glugga.

9 comments:

  1. Ég dáist alveg botnlaust að þér fyrir að vera svona ástríðufull að þú nenni að bjóða í dót á Ebay! Mig langar aldrei nógu mikið í neitt til að ég nenni því (og svo er ég svo nísk líka).

    En þetta er krúttílegasti glerfiskur.

    ReplyDelete
  2. Iss, það var bara nýjabrumið, nú er ég eiginlega hætt að nenna að skoða. En það litla sem ég hef keypt hef ég reyndar verið hæstánægð með.

    Þó að maður fái hlutina á skaplegu verði á ebay eða etsy er flutnings- og tollkostnaður fábjánalega hár.

    ReplyDelete
  3. Kristín í ParísApril 15, 2011 at 6:25 PM

    Ég prófaði í fyrsta skipti e-bay (við blátt áfram eeelskum nágranna okkar sem talar í sífellu um ö-be, á sinn dásamlega franska hátt og köllum þetta orðið ekki annað) til að reyna að ná í frábæra bakka eftir hænukönnukallinn. En lenti einmitt í svona forriti sem bauð á síðasta sekúndubroti og brotnaði svo niður að ég hef ekki reynt aftur. Enda er ég dálítið nísk líka og finnst helst að hlutirnir eigi að koma til mín, ekki ég til þeirra. Ég bjarga og við tengjumst. Ekki ég tengist og ég kaupi. Ef þetta skilst (ég er komin með pastís í glas og hann sveif beint á mig).

    ReplyDelete
  4. Kristín í ParísApril 15, 2011 at 6:27 PM

    Gleymdi alveg að dást bæði að fisknum og kertastjakanum! Og kenni pastísnum alfarið um.

    ReplyDelete
  5. Fiskurinn er æði. En tollurinn er alls ekki æði. Ó nei.

    ReplyDelete
  6. Kristín, ég verð að passa mig rækilega á öbe, það lúrir nebbla spennufíkill í mér. Og eins og Harpa nefnir, þá eru tollar og aðflutningsgjöld þvílíkt óbermi að þetta borgar sig engan veginn.

    ReplyDelete
  7. Kristín í ParísApril 16, 2011 at 4:30 PM

    Í fáfræði minni hélt ég að það væru engir tollar á notuðu dóti. Öbe er náttúrlega efalítið ein magnaðasta búð í heiminum.

    ReplyDelete
  8. Það leggst eitthvert "tollmeðferðargjald" á draslið. Svo kostar líka yfirleitt formúu að flytja það hingað upp á skerið. Kostnaðurinn við vöruna sjálfa er oft um þriðjungur af heildarkostnaði.

    ReplyDelete
  9. Öbe er mesta snilld. Við mæðginin erum skæð og höfum verið það lengi. Ég keypti einu sinni Nintendo 64 tölvu með fullt af leikjum á slikk. Kostaði ekki einu sinni mikið hingað komið með tollum og öllu. Hér á landi gengur slíkt milli safnara á fáránlegu verði. Sonurinn hefur keypt sér vintage föt sem eru ódýrari hingað komin en þau sem fást í búðunum. Og fyndnustu ljótu jólapeysur sem ég hef séð. Hann kaupir líka í Rauða kross búðinni en þetta er svona önnur deild. Maður þarf oft að leita vel til að finna það sem er nógu ódýrt til að borgi sig að kaupa það þrátt fyrir þessa rokna tolla og gjöld.

    ReplyDelete