Saturday, April 9, 2011

Búðarkona spillir baununum

Loksins fékk ég að vera búðarkona á dótamarkaði. Það var fínt, sérstaklega að hitta sambloggara, t.d. Þórdísi, Ernu, Hörpu, Nönnu og Don Pedro (sínjor og júníor).

Ég mætti á Eiðistorg um hálf ellefu, og þá var allt orðið fullt, varla fermetri eftir til að hola niður borði. Fundum smáblett fyrir framan Vínbúðina (konan á næsta borði sagði reyndar að við mættum ekki vera þar, átévafferrarar hefðu rekið einhvern þar í burtu fyrir skömmu, en ég hlustaði ekki á múður).

Jæja. Ekki var þetta besta staðsetningin, að blasa við fólki nýkomnu úr Ríkinu, margir með þunga poka og ponku hnípnir. Út lulluðu m.a. tveir yfirmenn mínir, vona að þeir dratthalist nú til að hækka við mig kaupið. Þeir hljóta að sjá að maður er ekkert of feitur af laununum, svona fyrst maður er farinn að selja dótið sitt á torgum.
Heilt yfir var þetta fínt, en það hefði óneitanlega verið skemmtilegra að hafa einhvern með sér. Hjálmar þurfti náttúrlega að fara í eitthvert veiðimannastúss, þannig að ég stóð vaktina ein. Ekki fer maður frá borðinu, ekki til að pissa, fá sér kaffi, skoða hjá hinum eða borða. Onei. Náði samt á útleið að grípa þessa sætu skál, sem er akkúrat af réttri stærð fyrir baunir eða annað grænmeti. Merkileg annars merkingin á henni, Lukull Feuerfest. Annað hvort er skálin eldföst eða auglýsing fyrir árshátíð brennuvarga.
Ekki seldist doppótti bollinn minn, eins og mér þykir hann fallegur. Fólk kann bara ekki gott að meta, varla hræða sem spurði hvað hann ætti að kosta.
Hins vegar föluðust margir eftir peningakassanum, en hann var ekki til sölu.

6 comments:

  1. Ég hafði hugsað mér 1000-1500 kall, sem er alls ekki mikið miðað við það sem ég hef séð á netinu. Þetta er bolli með fylgidiski,frá fyrrihluta sjöunda áratugarins, í toppstandi.

    ReplyDelete
  2. Það var gaman að hitta þig svona í eigin persónu svona til tilbreytingar. og takk fyrir hjálpina við að velja bolinn!
    Bleika hænan sló alveg í gegn hjá snúllunni, eins og við var að búast,

    ReplyDelete
  3. Gott að heyra, frábært að sjá þig líka. Rauði bolurinn á örugglega eftir að vekja lukku:)

    ReplyDelete
  4. Æ, mig langaði svo að koma en átti ekki heimangengt. Ég sem læt sjaldnast markaði fram hjá mér fara. Skálin er sæt!

    ReplyDelete
  5. Takk Sigga. Við sjáumst bara næst:)

    ReplyDelete