Tuesday, April 26, 2011

Við fyrsta portúgal

Eftir vinnu kom ég við í Góða hirðinum, eins og ég geri stundum. Þótt ég þykist sjóuð í gramsi, get ég verið skelfilega fljótfær og gripið hluti í skorti á óaðgæsluleysi. Þannig fór í dag. Var búin að gleyma að ég væri fótgangandi og rogaðist heim með hvítan blómapott á stærð við skúringafötu undir handleggnum, fulla af dóti. Hafði tvo trefla vafða um höfuð og háls og var almennt fremur asnaleg er ég paufaðist móti rokinu. Ég var Magnús Spaugstofuson.

Í gramsæðinu í dag stökk hanaparið sem sjá má á myndinni oní körfuna hjá mér. Fyglin þóttust eitthvað merkileg, sögðust vera þungavigtarhanar úr fínum málmi. Þegar ég fór að rannasaka málið kom í ljós að þetta eru nauða algengir túristahanar sem eiga sér samt sem áður býsna áhugaverða sögu. Galo de Barcelos kallast þessi litríki hani í Portúgal og ef maður fer með slíkan úr landi á það að bera manni gæfu. Vonandi að sá sem losaði sig við hanana í Góða hirðinn sitji ekki eftir gæfusnauður.
Litli sænski kertastjakinn kostaði bara 100 kall. Hann er merktur Boström Original Modell og er, já, bara snotur gripur þykir mér. Oseiseijá. Það held ég nú.

6 comments:

  1. Fátt toppar sænska smíðisgripi. Í fyrra gekk ég alla leið heim úr Góða hirðinum með stórar trjáklippur. Ég sveiflaði þeim eins og handrukkari í vígahug og hef klippt margar greinar með þeim. Í dag keypti ég hins vegar lampa úr IKEA sem mig vantaði, hann kostaði 200 krónur en kostar 3000 í IKEA. Talandi um hagsýni!

    ReplyDelete
  2. Sætt af þeim að drösla gæfunni alla leið frá Portúgal áleiðis til þín. Vorkenni þér ekkert að þurfa að taka lokaskrefin.

    ReplyDelete
  3. Fallegt par þetta...hugsaði fyrst að þetta væru karl og kerling sem endurspeglaðist í hinum hefðbundna stærðarmun - en svo poppaði upp teiknimyndabóla í huganum og í henn stóð: Hanar eru karlkyns, doh! Sem sagt fallegt hommapar!

    ReplyDelete
  4. Já, parið er myndarlegt, og kemur kynhneigð þar hvergi nærri:)

    ReplyDelete