Tuesday, June 28, 2011

Einn þýskur og annar upprunaóljós

Um þessar mundir erum við partnerinn að útbúa vinnu/gestaherbergi og fylla það af bókum og dóti sem ég hef rekist á hér og þar. Bækur og munir með fortíð eru samsetning sem blífur.

Lifandis ósköp er annars gaman að hafa herbergi til að innrétta bara fyrir sig (þ.e. ekki barnaherbergi). Fyrsta skipti sem ég upplifi slíkan lúxus í minni búskapartíð.

Rauða vasann búttaða fann ég í Góða og keypti þrátt fyrir okurprís (900 kall). Vasinn er vestur þýskur, gæti verið Dümler & Breiden (á eftir að grúska meira til að bera kennsl á framleiðanda). Rauður minn er sterkur stór (stinnur mjög til ferðalags), nenni ekki að mæla en hann er ábyggilega 30 sm hár og býsna sver.

Ég hef það sterkt á tilfinningunni að nytjamarkaðir hafi snarhækkað verð á skrani undanfarið, ekki hvað síst Góði hirðirinn.

Kristniboðarnir fara samt trúlega (haha) fremstir í flokki hvað þetta varðar, held að þeir eigi hæsta verðið á nytjamarkaðnum (fyrir utan Fríðu frænku og svoleiðis búðir sem tengjast ekki góðgerðastarfsemi). Samhjálp, ABC og Herinn eru enn með býsna gott verð. Svona almennt og yfirleitt. Vitaskuld erfitt að gera verðkönnun a la Neytendasamtökin, en þó væri hægt að bera saman verð á fondú-settum. Ég hef nefnilega komist að því að fondú-sett eru algengir gripir meðal gripa sem enginn vill eiga.

Að öðru. Þessi blái glervasi varð minn nýlega og ég veit að ég hef séð svipaðan einhvers staðar en kem því ekki fyrir mig. Ergilegt.

Vasanum má snúa við og þá verður hann kertastjaki, barbabrella. Hann er tvöfaldur í glerinu þessi gaur.

Munum svo öll eftir flóamarkaðnum í Norðurmýri, þar verður fjör (og mögulega eitt eða tvö fondú-sett).


Viðbót: Kevin Graham feitleirssérfræðingur, segir að rauði vasinn sé framleiddur af Ilkra Edel Keramik. Og þá vitum við það.

Önnur viðbót: Glervasinn er tékkneskur og um hann má lesa hér.

Sunday, June 19, 2011

Dunk dunk og Doppa

Sumarið. Ég vil þamba það græðgislega. Aldrei fæ ég nóg af sumri. Aldrei fæ ég nóg sumarfrí.

Hef ráfað svolítið á götumarkaði og nytjamarkaði undanfarið og gripið eitt og annað forvitnilegt. Rakst t.d. á þennan dunk um daginn, hann var svo grómtekinn að varla sást í blikkið. Hefur greinilega verið í brúki fram að vistaskiptum, því inni í honum var plastskeið og botnfylli af kaffi.

Þegar ég skrúbbaði dunkinn, fór talsvert af lakkinu af, sérstaklega þessu rauða á lokinu. Það þótti mér leitt og langar að koma kvörtun til Ó. Johnson & Kaaber.

Kaffikvörnina erfði ég eftir ömmu mína og doppóttu mjólkurkönnuna líka. Amma skírði gjarnan hlutina sína og heitir þessi kanna Doppa dropgóða.

Að endingu vil ég minna á markað í fínu hverfi, þann 9.júlí. Þar verður margt eigulegra muna.

Sunday, June 5, 2011

Himinblá

Í gær fengum við góða gesti í mat, mæðgurnar Helgu og Hlédísi. Þær komu færandi hendi, með þessa fallegu skál í boðið. Og chili-súkkulaði!

Skálin stendur nú á skenknum mínum, og það er hreint eins og brot úr bláum himni hafi fallið ofan. Eða blátær alda skolast upp og frosið í tíma.

Blátt gler, mjúkar línur, dýrðin ein.

Hef ekki hugmynd um hvað þessi skál er gömul, en veit að hún er framleidd í norskri glerverksmiðju, Magnor.

Verksmiðja þessi var stofnuð í Svíþjóð árið 1830 og var um tíma starfrækt báðum megin við landamærin, en er nú eingöngu í Noregi. Magnor halda ótrauðir áfram í glerverkinu, ef marka má heimasíðuna þeirra.

Magnað. Hvað gler getur verið fallegt og súkkulaði gott og fólk líka.

Saturday, June 4, 2011

Ligga ligga látún

Veit ekki hvað er að gerast, en allt í einu eru uppsprottnir nytjamarkaðir hér og þar, t.d. Samhjálp, Góði hirðirinn, ABC, Herinn o.fl. á höfuðborgarsvæðinu, Búkolla á Akranesi og einhverjir markaðir fyrir norðan sem ég kann ekki að nefna, en stefni á að kanna í sumar.

Að auki líður nú varla sú helgi að ekki sé í boði einhvers konar skranmarkaður á götum og torgum. Bara tímaspursmál hvenær bílskúrssölur eins og tíðkast í Amríkunni verða daglegt brauð.

Þetta er góð þróun. Til hvers að kaupa nýtt ef nýta má gamalt?

Við skötuhjúin vöfruðum á Eiðistorg í dag, og ætlaði ég bara að skoða, ekkert að kaupa. Rakst á vingjarnlega eldri dömu sem var að selja ýmiskonar dót, að sögn vegna flutnings í minna húsnæði. Áttum við ágætt spjall sem gekk svolítið út á andprútt, manneskjan var lélegri í verðlagningu en ég. Það sem sést á efri myndinni keypti ég að lokum fyrir 1300 krónur. Og er alsæl með það.

Kertastjakarnir rauðu eru úr kopar og rauðmáluðu tré. Guðdómlegir, ef einhver spyr mig.

Stundum hef ég áhyggjur af hlutablætinu, og stundum ekki. Þetta hlýtur að ganga yfir áður en það verður yfirgengilegt.

Ég meina, hversu marga kertastjaka getur ein kona átt? Hljóta að vera takmörk fyrir því.

Mögulega er hægt að gera eitthvað skynsamlegra við aurinn en að kaupa skran. Til dæmis að kaupa skran og blogga um það. Þá er komið bókmenntalegt ívaf í áhugamálið, sem lyftir því upp á örlítið hærra plan.

Þetta er Elísabet frá Látúni sem talar.

Friday, June 3, 2011

Frídagsgramsferðalag

Í dag átti ég frí. Vafalítið kemur það einhverjum á óvart, en dagurinn fór að nokkru leyti í ráp um nytjamarkaði höfuðborgarsvæðisins. Dró mömmu gömlu með, þannig að félagsskapurinn var súper fínn. Enduðum á Café Haítí í eplaköku með karamellu og úrvals kaffi. Alveg óleiðinleg ferð, getið sveiað ykkur upp á það.

Rúnturinn hófst í Góða hirðinum um hádegisbil og hef ég aldrei séð annað eins. Troðningurinn var slíkur að jafnaðist á við neðanjarðarlest í Tokyo (á annatíma). Við móðir mín ésúuðum okkur gegnum þvöguna. Undum ekki lengi þar inni, en ég náði að grípa þrjár desertskálar, tvö púrtvínsglös, einn japanskan kertastjaka og tvær danskar dollur. Mamma tvo blómapotta. Og biðröðin var ógnarlöng. Úff púff, Góði hirðirinn er allt of vinsæll.

Næst lá leiðin í Austurver, til kristniboðanna. Þar keypti ég einn lítinn disk og ljóðabók fyrir unglinga. Síðan fórum við í Samhjálp, þar var gaman. Keypti tvær skálar, Haldensleben vasa, austantjaldslega kúpu og græna sinnepskrukku.
Sinnepskrukkan er býsna dúlluleg og náttúrlega sænsk. Grænn, grænn, grænn, er leirinn hennar baunar...
Þessi undarlega kúpa var hjá Samhjálp. Hún er þunglamaleg en samt svo...vinaleg...og græn.
Hef ekki hugmynd um hvaðan hún er, en merkingin er svona:
Hjá nytjamarkaði ABC fann ég þessa vönduðu piparkvörn frá Bodum, alveg í stíl við hnetubrjót sem ég keypti hér um árið fyrir hvítuna úr augunum. Kvörnin kostaði mig eitt hundrað krónur.
Ísfötuna keypti ég líka hjá ABC, þetta er fantafín dönsk spanda. Patent laus rist í botninum og ístöng fylgir með. Veit ekki hvernig við höfum plummað okkur hingað til ísfötulaus á heimilinu, en nú verður slíku hokri hætt.

Gin og tóník, anyone?