
Um daginn fann ég þessa fallegu blómamynd á nytjamarkaði, ramminn og glerið voru svo krímug að varla sást í blómin. Ég hélt þetta væri prentuð mynd en þegar ég tók hana úr rammanum sá ég að hún er máluð og signeruð. Aftan á myndinni er miði með ágætum skýringum á rússnesku. Mér þætti fengur í að vita hvað stendur á miðanum, en kann ekkert í rússkí. Þigg gjarnan hjálp, ef hjálp er að fá meðal lesenda minna (allra fimm).
Svo ég vaði nú úr einu í annað. Hjólaði áðan niður í bæ í rigningunni og kom við í Rokki og rósum. Er að leita mér að kjól fyrir brúðkaup dóttur minnar í sumar, ætlaði að hafa tímann fyrir mér svo ég yrði ekki í stresskasti á síðustu stundu.Held að þessi græni kjóll með fislétta sjiffonpilsinu og dásamlega fóðrinu (ólýsanlegt á litinn, sanserað dumbfjólublátt) sé kjóllinn. Fyrir móður brúðarinnar.
Nú vantar mig sjal, grátt eða silfurlitt, lekkert og þunnt sem köngulóarvef. Ég á nefnilega skæslega silfurskó.