Thursday, July 26, 2012

Fiskurinn sem fór í bað


 Á nytjamarkaði varð á vegi mínum fiskur, hann var óásjálegur en eitthvað við hann vakti athygli mína. Fiskurinn var svartur og brúngylltur. Ég tók hann upp, sá að hann hafði verið spreiaður, sneri honum við og sjá: þetta var Bay keramik frá miðri síðustu öld, og hafði einu sinni verið blátt ef marka mátti bakhliðina. Skil ekki hvernig fólki getur dottið í hug að spreia svona elegant keramik, það er bara mannvonska.

Ég fór í Byko og spurði bólugrafinn ungling sem þar var að störfum um efni sem næði svona lakki af og vildi hann helst selja mér einhvern "paint stripper" óþverra sem kostaði 3000 kall. Ég spurði hvort terpentína dygði mögulega, og við það yppti drengurinn öxlum og sagði "kannski". Ég keypti terpentínu og lagði fiskinn í bleyti í heilan sólarhring.

Eftir terpentínubaðið langa og ákaft nudd var fiskurinn alveg jafn svartur og áður. Datt mér þá í hug að prófa aseton, og viti menn! Málningin flaug af með naglalakkseyðinum.

Og nú á ég firna sætan fisk.

9 comments: