Tuesday, January 17, 2012

Ravnild skál



Þessa skál fann ég í GH og þykir hún falleg. Ég þekkti ekki hvaðan hún var, en það var rifinn miði á botninum, gylltur með einhvers konar kráku og lesa mátti "nild" og "nma". Þetta er eitt af því sem er svo skemmtilegt við munablætið - maður leitar vísbendinga, verður forvitinn og spenntur að vita meira um hlutinn. Eftir nokkra rannsóknarvinnu, með dyggri aðstoð frá munasystur minni Þórdísi, kom í ljós að skálin var framleidd af Ravnild Keramik, leirverkstæði á Fjóni sem starfrækt var á árunum 1949-86. Stofnandi smiðjunnar, Frederik Ravnild (1910-1976), lærði iðn sína hjá Den Kongelige Porcelænsfabrik í Kaupmannahöfn og vann hjá Söholm (á Bornholm) áður en hann stofnaði sína eigin verksmiðju í Óðinsvéum.

Myndirnar gjalda myrkurs við ljós(myndun), en skálin er grængul og svört.

Tuesday, January 10, 2012

Fimm fræknir




Mig langaði svo að líða eins og allt væri með felldu í lífi mínu smástund og ákvað því að brjótast í ófærðinni í nytjamarkað Samhjálpar. Dró betri helminginn með mér á éppanum, við böðluðumst gegnum skafla og hríð. Og komum að læstum dyrum því Samhjálp hafði lokað vegna veðurs. Fuss!

Við ákváðum að gefast ekki upp og rétt náðum inn í Skútuvog hjá ABC fyrir lokun og þar fann ég þessa fimmmenningaklíku. Sjaldan séð krúttlegri eggjabikara, svei mér þá. Þeir eru merktir Embee Products, framleiddir í Bretlandi.

Hjá ABC fann ég líka ýmislegt fleira, t.d. IRA dunk, Erik Kold dollu og risastóran og feitan vestur þýskan vasa.

Ef væri ég trúbador syngi ég Það er gohott að gramsa ...

P.S. Hér er rétt að minna á að hjá Dísu og Betu er aldrei lokað vegna ófærðar.