Saturday, August 20, 2011

Skál fyrir dans

Snotur skál. Finnst mér. Hún er frekar lítil, kannski dvergspönn í þvermál. Fann hana í Góða í gær.

Iðandi dansmúv horfinna tíma. Grænt, gult, brúnt og órans.

Mig hefur alltaf langað að vera týpan sem segir órans, en satt að segja er ég alin upp í Kópavogi og segi appelsínugult.






Leirinn er dökk- rauðbrúnn. Mig grunar að þessi skál gæti verið íslensk, en hún er ómerkt.




Á svölunum mínum er líka litadans.

Thursday, August 4, 2011

Hjartarskál

Í sumarfríinu hef ég endrum og sinnum ranglað inn í nytjamarkaði. Furðu sjaldan reyndar, miðað við þrálátar gramsfýsnir mínar.

Hjá Samhjálp fann ég nýverið þessa fallegu ávaxtaskál. Hún á ættir að rekja til L. Hjorth´s Terracotta Fabrik, sem starfrækt var í Rönne á Bornholm. Um þessa dönsku leirsmiðju má lesa góða samantekt hér.

Skálin er stór og þung, hún vegur 2 kg og er 25 sm í þvermál. Í henni mætti geyma bæði ananas og melónu, en það verður ekki gert vegna þess að ég borða ekki melónur.

Ekki var róið á hin djúpu mið þegar merking Hjorth verksmiðjunnar var ákveðin, mynd af hirti þrykkt í leirinn.

Svo skemmtilega vill til að ég veit hvenær skálin var framleidd, því svona skál (sama form, mynstrin eru mismunandi) má sjá í katalóg frá L. Hjorth árið 1930.

Leirmunir af þessu tagi eru alls ekki eftirsóttir meðal tískbólinga. Ólíkt mér er skálin nefnilega of gömul til að vera retró.