Thursday, August 4, 2011

Hjartarskál

Í sumarfríinu hef ég endrum og sinnum ranglað inn í nytjamarkaði. Furðu sjaldan reyndar, miðað við þrálátar gramsfýsnir mínar.

Hjá Samhjálp fann ég nýverið þessa fallegu ávaxtaskál. Hún á ættir að rekja til L. Hjorth´s Terracotta Fabrik, sem starfrækt var í Rönne á Bornholm. Um þessa dönsku leirsmiðju má lesa góða samantekt hér.

Skálin er stór og þung, hún vegur 2 kg og er 25 sm í þvermál. Í henni mætti geyma bæði ananas og melónu, en það verður ekki gert vegna þess að ég borða ekki melónur.

Ekki var róið á hin djúpu mið þegar merking Hjorth verksmiðjunnar var ákveðin, mynd af hirti þrykkt í leirinn.

Svo skemmtilega vill til að ég veit hvenær skálin var framleidd, því svona skál (sama form, mynstrin eru mismunandi) má sjá í katalóg frá L. Hjorth árið 1930.

Leirmunir af þessu tagi eru alls ekki eftirsóttir meðal tískbólinga. Ólíkt mér er skálin nefnilega of gömul til að vera retró.

12 comments:

  1. Of gömul til að vera retró en ekki nógu gömul til að vera antík. Eftir 20 ár verður hún hins vegar komin í antíkhilluna.

    ReplyDelete
  2. Já, þá kúrum við saman á antikhillunni, skálin og ég:)

    ReplyDelete
  3. Ég hef ekki komið á einn einasta flóamarkað síðan í júní! Nema náttúrlega okkar eigin í garðinum Ég er ekki að djóka.

    ReplyDelete
  4. Gvuðséossnæstur! Gramsbindindi hljómar skelfilega!

    ReplyDelete
  5. Nú ætla ég að læðupokast um alla þessa markaði í sumarfríinu! Nema kannski hjá síra Eðvarði.

    ReplyDelete
  6. Það líst mér á. Mundu svo eftir "show and tell" reglunni.

    ReplyDelete
  7. Já, ég reyni að staulast upp á bloggstól af einhverju tagi og segja frá. Annars 'sé ég aldrei neitt'.

    ReplyDelete
  8. Mikið er hún falleg! Er þetta ekki móðins? Þá er ég bara lummó því mér finnst skálin æði.

    ReplyDelete
  9. Harpa, við erum þá bara lummó báðar tvær:)

    Ray, thanks, and thanks again for your fun and informative blog!

    ReplyDelete
  10. Palleg skál! Þú ert svo ótrúlega fundvís á svona hluti Beta. Hef farið á nokkra flóamarkaði í sumar og fer bráðum að blogga eitthvað um þessar heimsóknir...kannski um helgina..

    ReplyDelete
  11. Mér finnst skálin falleg og svo er eitthvað við svona volduga og þunga hluti sem heillar mig. Ekki spillir þrykkti hjörturinn fyrir, hann er flottur og alger óþarfi að leita langt yfir skammt í merkingum muna:)

    ReplyDelete