
Í gær brugðum við okkur í bíltúr upp á Skaga til að skoða nytjamarkaðinn
Búkollu. Og auðvitað Hvalfjarðargöng, máva, hús og mannlíf í leiðinni. Það var ósköp notalegt að koma í Búkollu, nóg pláss, snyrtilegt og fínt. Þarna var ýmislegt til sölu, slatti af húsgögnum, bókum, plötum og allskonar dóti.

Ég keypti nokkra blómapotta (kækur), leirfíl og svo þetta eggjabikarasett. Bikararnir eru þræddir upp á pinna þannig að notkun settsins þroskar hug og hönd. Þess má einnig geta að það er úr úrvals viði, kannski hnotu. Og vönduðu plasti.

Fílakertastjakinn er algjör krúttbomba.

Ekki verður það sama sagt um þetta plötuumslag. Engum getur þótt þessi náungi krútt. Engum segi ég, ekki einu sinni mömmu Demisar.

Talandi um mömmur og söngvara. Það var dágóður stafli af hljómplötum til sölu í Búkollu á 250 krónur stykkið. Ófáar skífurnar voru með áþrykktum söng Kristjáns nokkurs Jóhannssonar.
Kjarakaup.