Saturday, September 24, 2011

Einn hár, einn feitur og einn blár

Hér kynni ég til sögunnar þrjá vasa sem líklega eru af skandinavísku bergi brotnir.

Þessi undarlega lagaði vasi er frá Aseda, ef mér skjöplast ekki. Það er ómögulegt að taka góða mynd af honum, hann þverneitar að vera í fókus. Meiri kjáninn.


Kúluvasinn minn er næstum örugglega frá Orrefors, OF er rispað í botninn og hef ég séð dæmi um slíkar merkingar frá Orrefors á alnetinu góða. Þessi vasi er miklu fallegri í eigin persónu en myndin gefur til kynna, ég er suddalega sæl með hann.
Sá þriðji er af óljósum uppruna, dálítið líkur Alsterfors vösum, en ég veit ekki ...
Gildir einu, hann er svo fallega blár að hann mætti vera úr brjóstsykri fyrir mér.

Að endingu vil ég minna alla unnendur vandaðra muna með fortíð, á flóamarkaðinn okkar Þórdísar, EIGULEGT.

Takk fyrir!

Wednesday, September 14, 2011

Stella Rörströnd

Í gær lagðist ég í flandur, fór í Góða og Samhjálp. Á fyrrnefnda staðnum rakst ég á nokkra Rörstrand diska, bæði matar- og fylgidiska, úr Elisabeth seríunni sem ég skrifaði um um daginn. Var bara býsna roggin eftir þann happafund.

Síðan lá leiðin í Samhjálp og hvað haldiði að hafi beðið mín þar? Sænskir englar syngjandi! Næstum heilt Annikustell! (Endilega smellið á myndina hér að ofan til að líta dýrðina augum).
Hér sit ég með rörströndina í hálsinum og strýk stellið mitt fína.

Tuesday, September 13, 2011

Baunin með lampann

Loksins er hann kominn með höfuðfat, litli sæti tekklampinn sem ég keypti á útimarkaði í Hafnarfirði í sumar. Var búin að leita og leita en fann hvergi skerm sem hægt var að festa beint á peruna (og hæfði lampanum). Næstum allir nútíma skermar eru festir á perustæðið, hljóta að vera einhverjar skermlægar öryggisreglur sem hafa breytt þessu.

Skerminn fína lét ég búa til í Litla skermahúsinu á Grensásvegi, þar er öndvegis skermagerðarkona sem kann sitt fag (held hún sé sú eina hér á landi sem hefur lært þessa list sérstaklega).

Við hlið lampans má sjá Bitossivasa sem ég keypti um daginn. Voða retró og krúttlegt allt saman.

Thursday, September 8, 2011

Tveir feitir og einn hippi

Langt síðan ég hef gramsað, kannski heil vika. Maður hemur sig af illri nauðsyn, t.d. þarf maður að vinna, elda, vaska upp, hanga í tölvu, erindrekast, fara í búðir og klippingu. En það er alveg ljóst að innst inni er ég meiri gramsari en amstrari.
Arkaði (í ömurlegum sokkabuxum og pilsi en það er önnur saga) í Góða eftir vinnu og fann þessa fjóra gripi. Skæslegan breskan seventís bakka, á lúnum miðanum stendur (sýnist mér) Worcester Ware. Svo keypti ég þessa feitu vasa, mjög sennilega vestur þýska, og eitt lítið Arabia kertastjakakríli.
Gaman. Að vera til og allt það.


Viðbót: Þessir vasar eru frá austur þýsku verksmiðjunni VEB Haldensleben, að því ég frómast veit.

Saturday, September 3, 2011

Kópavogsmarkaður

Sérdeilis góður dagur í dag. Hann hófst á indælu morgunverðarboði hjá fyrirmynd minni og uppáhalds dótabloggara, henni Þórdísi. Síðan lá leiðin á markað í gamla heimabænum, Kópavogi. Hamraborgin er rislítill miðbær, en þessi markaður var flottur og blés lífi í malbikssteypuumhverfið. Það sem gerði markaðinn öðrum betri var auðvitað veðrið, og svo tónlistin. Slatti af fólki að spila og syngja (áhugaverð kakófónína á köflum) og skælbrosandi eldri borgarar að sýna dans (allir í fantasveiflu og eins jogginggöllum). Vildi að ég hefði tekið myndavélina með, þetta var svo skemmtilegt.

Á efstu myndinni má sjá megnið af því sem ég keypti. Einna ánægðust er ég með vandaða ítalska leðurtösku (1000 kr.).
Þessar desertskálar eru fagurgrænar og þar af leiðandi velkomnar á heimilið.
Íslenzkar kvenhetjur, útg. 1948. Frábær titill, hlakka til að glugga í þessa skruddu.
Royal Copenhagen Fajance kertastjakann keypti ég af fyrrum samstarfskonu minni, henni Gunnhildi. Mér finnst hann svaka fallegur.
Og svo enn einn blómapottinn, ég á orðið laglegt safn. Þetta er stór koparpottur, últra svalur (kr. 300).

Eftir markaðsgramsið lá leið okkar Hjálmars í Kost, þar sem við keyptum allskonar skrítinn mat, t.d. kanilséríós, kókos m&m og hnetusmjörsnammi. Síðan fórum við heim og ég bjó til rabbarbarasultu og rifsberjahlaup. Osom.

Lifi Kópavogur.

Smá viðbót: Samkvæmt netrannsóknum er kertastjakinn blái hannaður af Berte Jessen fyrir Royal Copenhagen á sjöunda áratugnum.