Monday, November 7, 2011

Skál fyrir mig





Um helgina fórum við betri helmingurinn í ferðalag til Akureyrar. Það var gaman. Við gerðum fátt hámenningarlegt, en spókuðum okkur í bænum, fórum á kaffihús og í búðir. Að sjálfsögðu fórum við í Frúna í Hamborg og Fröken Blómfríði, en það hljóta að vera skemmtilegustu búðirnar norðan heiða. Í síðarnefndu búðinni fann ég þessa yndisfögru skál. Litirnir og formið örguðu á mig: Beta Beta!

Skálin appelsínuhressa er vestur þýsk, framleidd af Bay Keramik um miðja síðustu öld. Ég er feikn lukkuleg með hana og hún með mig.

Friður, ást og frjálst hár.

Wednesday, November 2, 2011

Hlutverk

Hlutur án hlutverks er eins og svefn án drauma. En hvað liggur í hlutarins eðli?




Ef eina verkfærið sem maður á er eggjabikar, líta öll vandamál út eins og egg.

Allir hlutir þrá hlutverk.
Perustæði.

Hugheilar þakkir fyrir góðar ábendingar.

Tuesday, November 1, 2011

Og gettu nú!

Einu sinni var kona sem fæddist með þeim ósköpum að hafa dálæti á gömlu dóti. Helst gömlu skrítnu dóti, jafnvel munum sem hún hafði ekki hugmynd um hvað ætti að gera við. Hér má sjá þrjú dæmi, því þessi kona er einmitt hún ég.

Á efstu myndinni má sjá hlut. Hann er úr tré og mætti lýsa sem knerri sem skagar upp úr einhvers konar bakka, eða fæti, með þremur holum. Holurnar eru sirka 2 sm í þvermál og lakkaðar í botninn með glansandi bláu lakki.
Næst sjáum við grip úr keramiki. Ekki er þetta kertastjaki og varla eggjabikar. Hvað þá?
Þriðji hluturinn hefur valdið heilabrotum með skruðningum í höfði. Um er að ræða bakka/fót/disk úr keramiki og tveimur skálum með loki.
Í hvorri skál liggur innri glerskál sem auðvelt er að fjarlægja.

Fyrirbærið er á að giska 12 sm breitt. Séð ofan frá er það eins og froskur. Kannski þetta sé froskur.

Og nú væri ekki ónýtt að fá tilgátur um meinta nytsemi ofangreindra muna, takk fyrir. Sláið í klárinn!

Monday, October 24, 2011

Bikarar

Ég játa. Ég er veik fyrir eggjabikurum. Þetta er safnið mitt, eða megnið af því. Þessi í fremri röð fyrir miðju er merktur KRON og þar vann ég einmitt þegar ég var fjórtán-fimmtán ára. Tilviljun? Held ekki.
Ef einhver á eggjabikar sem hann langar ekki að eiga og eggjabikarinn er svalur, óvenjulegur eða óumræðanlega fagur, væri gaman að heyra af því. Kannski getum við býttað, ég á margt eigulegt dót.

Jájá, svo minni ég auðvitað á eigulegt.blogspot.com

Sunday, October 9, 2011

Retrósvunta



Mikið lifandi skelfing finnst mér þessi svunta lagleg. Hún er dönsk, merkt Tegner Tryk, en ekki varð mér mikið ágengt með að finna upplýsingar um það gamla kompaní á netinu.

Ef einhver ætlar að dissa mig vegna ófaglegrar straujunar á svuntunni, þá ætti sá sami bara að fá sér kakó.

Minni síðan á besta flóamarkað á landinu, þið vitið hver hann er:)

Saturday, September 24, 2011

Einn hár, einn feitur og einn blár

Hér kynni ég til sögunnar þrjá vasa sem líklega eru af skandinavísku bergi brotnir.

Þessi undarlega lagaði vasi er frá Aseda, ef mér skjöplast ekki. Það er ómögulegt að taka góða mynd af honum, hann þverneitar að vera í fókus. Meiri kjáninn.


Kúluvasinn minn er næstum örugglega frá Orrefors, OF er rispað í botninn og hef ég séð dæmi um slíkar merkingar frá Orrefors á alnetinu góða. Þessi vasi er miklu fallegri í eigin persónu en myndin gefur til kynna, ég er suddalega sæl með hann.
Sá þriðji er af óljósum uppruna, dálítið líkur Alsterfors vösum, en ég veit ekki ...
Gildir einu, hann er svo fallega blár að hann mætti vera úr brjóstsykri fyrir mér.

Að endingu vil ég minna alla unnendur vandaðra muna með fortíð, á flóamarkaðinn okkar Þórdísar, EIGULEGT.

Takk fyrir!

Wednesday, September 14, 2011

Stella Rörströnd

Í gær lagðist ég í flandur, fór í Góða og Samhjálp. Á fyrrnefnda staðnum rakst ég á nokkra Rörstrand diska, bæði matar- og fylgidiska, úr Elisabeth seríunni sem ég skrifaði um um daginn. Var bara býsna roggin eftir þann happafund.

Síðan lá leiðin í Samhjálp og hvað haldiði að hafi beðið mín þar? Sænskir englar syngjandi! Næstum heilt Annikustell! (Endilega smellið á myndina hér að ofan til að líta dýrðina augum).
Hér sit ég með rörströndina í hálsinum og strýk stellið mitt fína.

Tuesday, September 13, 2011

Baunin með lampann

Loksins er hann kominn með höfuðfat, litli sæti tekklampinn sem ég keypti á útimarkaði í Hafnarfirði í sumar. Var búin að leita og leita en fann hvergi skerm sem hægt var að festa beint á peruna (og hæfði lampanum). Næstum allir nútíma skermar eru festir á perustæðið, hljóta að vera einhverjar skermlægar öryggisreglur sem hafa breytt þessu.

Skerminn fína lét ég búa til í Litla skermahúsinu á Grensásvegi, þar er öndvegis skermagerðarkona sem kann sitt fag (held hún sé sú eina hér á landi sem hefur lært þessa list sérstaklega).

Við hlið lampans má sjá Bitossivasa sem ég keypti um daginn. Voða retró og krúttlegt allt saman.

Thursday, September 8, 2011

Tveir feitir og einn hippi

Langt síðan ég hef gramsað, kannski heil vika. Maður hemur sig af illri nauðsyn, t.d. þarf maður að vinna, elda, vaska upp, hanga í tölvu, erindrekast, fara í búðir og klippingu. En það er alveg ljóst að innst inni er ég meiri gramsari en amstrari.
Arkaði (í ömurlegum sokkabuxum og pilsi en það er önnur saga) í Góða eftir vinnu og fann þessa fjóra gripi. Skæslegan breskan seventís bakka, á lúnum miðanum stendur (sýnist mér) Worcester Ware. Svo keypti ég þessa feitu vasa, mjög sennilega vestur þýska, og eitt lítið Arabia kertastjakakríli.
Gaman. Að vera til og allt það.


Viðbót: Þessir vasar eru frá austur þýsku verksmiðjunni VEB Haldensleben, að því ég frómast veit.

Saturday, September 3, 2011

Kópavogsmarkaður

Sérdeilis góður dagur í dag. Hann hófst á indælu morgunverðarboði hjá fyrirmynd minni og uppáhalds dótabloggara, henni Þórdísi. Síðan lá leiðin á markað í gamla heimabænum, Kópavogi. Hamraborgin er rislítill miðbær, en þessi markaður var flottur og blés lífi í malbikssteypuumhverfið. Það sem gerði markaðinn öðrum betri var auðvitað veðrið, og svo tónlistin. Slatti af fólki að spila og syngja (áhugaverð kakófónína á köflum) og skælbrosandi eldri borgarar að sýna dans (allir í fantasveiflu og eins jogginggöllum). Vildi að ég hefði tekið myndavélina með, þetta var svo skemmtilegt.

Á efstu myndinni má sjá megnið af því sem ég keypti. Einna ánægðust er ég með vandaða ítalska leðurtösku (1000 kr.).
Þessar desertskálar eru fagurgrænar og þar af leiðandi velkomnar á heimilið.
Íslenzkar kvenhetjur, útg. 1948. Frábær titill, hlakka til að glugga í þessa skruddu.
Royal Copenhagen Fajance kertastjakann keypti ég af fyrrum samstarfskonu minni, henni Gunnhildi. Mér finnst hann svaka fallegur.
Og svo enn einn blómapottinn, ég á orðið laglegt safn. Þetta er stór koparpottur, últra svalur (kr. 300).

Eftir markaðsgramsið lá leið okkar Hjálmars í Kost, þar sem við keyptum allskonar skrítinn mat, t.d. kanilséríós, kókos m&m og hnetusmjörsnammi. Síðan fórum við heim og ég bjó til rabbarbarasultu og rifsberjahlaup. Osom.

Lifi Kópavogur.

Smá viðbót: Samkvæmt netrannsóknum er kertastjakinn blái hannaður af Berte Jessen fyrir Royal Copenhagen á sjöunda áratugnum.

Saturday, August 20, 2011

Skál fyrir dans

Snotur skál. Finnst mér. Hún er frekar lítil, kannski dvergspönn í þvermál. Fann hana í Góða í gær.

Iðandi dansmúv horfinna tíma. Grænt, gult, brúnt og órans.

Mig hefur alltaf langað að vera týpan sem segir órans, en satt að segja er ég alin upp í Kópavogi og segi appelsínugult.






Leirinn er dökk- rauðbrúnn. Mig grunar að þessi skál gæti verið íslensk, en hún er ómerkt.




Á svölunum mínum er líka litadans.

Thursday, August 4, 2011

Hjartarskál

Í sumarfríinu hef ég endrum og sinnum ranglað inn í nytjamarkaði. Furðu sjaldan reyndar, miðað við þrálátar gramsfýsnir mínar.

Hjá Samhjálp fann ég nýverið þessa fallegu ávaxtaskál. Hún á ættir að rekja til L. Hjorth´s Terracotta Fabrik, sem starfrækt var í Rönne á Bornholm. Um þessa dönsku leirsmiðju má lesa góða samantekt hér.

Skálin er stór og þung, hún vegur 2 kg og er 25 sm í þvermál. Í henni mætti geyma bæði ananas og melónu, en það verður ekki gert vegna þess að ég borða ekki melónur.

Ekki var róið á hin djúpu mið þegar merking Hjorth verksmiðjunnar var ákveðin, mynd af hirti þrykkt í leirinn.

Svo skemmtilega vill til að ég veit hvenær skálin var framleidd, því svona skál (sama form, mynstrin eru mismunandi) má sjá í katalóg frá L. Hjorth árið 1930.

Leirmunir af þessu tagi eru alls ekki eftirsóttir meðal tískbólinga. Ólíkt mér er skálin nefnilega of gömul til að vera retró.

Monday, July 11, 2011

Elisabeth, Rörstrand og ég

Ég hoppaði hæð mína í loft upp (inní mér) þegar ég kom auga á þennan leir í Góða. Rörstrand og nafna mín í þokkabót, því þetta stell heitir Elisabeth, hönnuður Marianne Westman. Stellið var framleitt hjá Rörstrand á árunum 1969-81.
Fékk tvær könnur, stóra og litla, og eitt mót með loki (eða súpuskál). Þetta lítur allt út eins og nýtt, nei, betur! Og litirnir hreinlega gæla við limbíska systemið í mér...


Þó að ég hafi farið í Góða í þetta skiptið til að leita að eldhúskollum og enga fundið, er ég ekkert spæld.