Tuesday, November 1, 2011

Og gettu nú!

Einu sinni var kona sem fæddist með þeim ósköpum að hafa dálæti á gömlu dóti. Helst gömlu skrítnu dóti, jafnvel munum sem hún hafði ekki hugmynd um hvað ætti að gera við. Hér má sjá þrjú dæmi, því þessi kona er einmitt hún ég.

Á efstu myndinni má sjá hlut. Hann er úr tré og mætti lýsa sem knerri sem skagar upp úr einhvers konar bakka, eða fæti, með þremur holum. Holurnar eru sirka 2 sm í þvermál og lakkaðar í botninn með glansandi bláu lakki.
Næst sjáum við grip úr keramiki. Ekki er þetta kertastjaki og varla eggjabikar. Hvað þá?
Þriðji hluturinn hefur valdið heilabrotum með skruðningum í höfði. Um er að ræða bakka/fót/disk úr keramiki og tveimur skálum með loki.
Í hvorri skál liggur innri glerskál sem auðvelt er að fjarlægja.

Fyrirbærið er á að giska 12 sm breitt. Séð ofan frá er það eins og froskur. Kannski þetta sé froskur.

Og nú væri ekki ónýtt að fá tilgátur um meinta nytsemi ofangreindra muna, takk fyrir. Sláið í klárinn!

14 comments:

  1. Neðsti hluturinn er sennilega blekbytta, fyrir tvo liti. Mér finnst hinar tvær vera af kertastjökum.

    ReplyDelete
  2. Já, mér hafði dottið blekbytta í hug en hvar á að setja skriffærið? Til hvers er "bakkinn", á að leggja pennann þar? Þá myndi leka úr honum á borðið. Sveimérþá, ég er ekki viss um að þetta sé blekbytta.

    ReplyDelete
  3. Illa hönnuð blekbytta nema þetta sé japanskt fyrir soju og engifer og til að leggja frá sér prjónana? Hitt eru kertastjakar hannaðir af amatörum, held ég.

    ReplyDelete
  4. Nei, tréfyrirbærið getur ekki verið kertastjaki, þessi stærð er ómöguleg fyrir öll kerti. Nennti ekki að mæla holurnar en ég var búin að prófa (holurnar eru líka svo grunnar).

    Soja og engifer tilgátan er nokkuð glúrin, þykir mér.

    ReplyDelete
  5. En kannski var bara einhver fáviti að smíða kertastjaka :) Nema það hafi verið litlir sjóarakallar í götunum?

    ReplyDelete
  6. Spáðu nú aðeins í að hafa þrjú kerti, hvert ofan í öðru, í kertastjaka gerðum úr viði. Segðu mér að það sé ekki satt.

    En fávitakertastjakagerðarmennirnir eru til alls vísir.

    ReplyDelete
  7. Mig langar að finna fullu sjómennina sem voru oní holunum.

    ReplyDelete
  8. Kannski var þetta ætlað fyrir lítil snafsastaup?
    Til hvers varstu annars að kaupa þetta?

    ReplyDelete
  9. Snafsastaup, já, þau væru þá afar smá og varla sjómönnum bjóðandi.

    Þarf ég að svara hinni spurningunni?

    ReplyDelete
  10. En Svíar gera gjarna stóra kertastjaka úr tré - eldhætta sko og allt það en samt ...

    ReplyDelete
  11. það vantar tilfinnanlega eitthvað stærðarviðmið á myndirnar, erfitt að átta sig á hlutföllum annars. Ef þetta efsta er agnarsmátt þá hafa kannski verið einhverjar smáfígúrur með skipinu, ef það er ekki alveg svo smátt gætu hafa verið þarna staukar eins og fyrir salt og pipar

    ReplyDelete
  12. Skal bæta við myndum í kvöld með stærðarviðmiðum.

    ReplyDelete
  13. Mér finnst þessir tveir efri ekki geta verið neitt nema kertastjakar, þó ég sé hrifin af hugmynd um staup eða fulla kalla með skipinu. Mér datt það sama í hug og Þórdísi, eitthvað japanskt sushisett, með þetta neðsta. Mér finnst ekkert undarlegt að þú hafir keypt þetta. Kristín í París.

    ReplyDelete
  14. þetta neðsta er blekbytta, ef þú gúglar inkwell færðu svipaða hluti upp

    ReplyDelete