Thursday, March 22, 2012

Föndurhornið





Fann gamlan og grúví lampa hjá Samhjálp um daginn (kr. 800). Hann var grútskítugur og bastið á skerminum tætt og slitið. Ég fór í föndurbúð og keypti þrjár fagurgular bastdokkur (kr. 1500) og vafði bastinu utan um skermgrindina, það gekk furðu vel miðað við að ég er ég. Síðan þreif ég lampann og rafvirki heimilisins rafvirkjaðist.

Árangurinn má sjá á myndunum. Lampinn hangir nú hinn rólegasti og bíður sófasettsins sem bráðum kemur heim.

Fylgist með, fylgist spennt með.

Thursday, March 8, 2012

Órói, kvika, keramik



Ó, ég er svo happí með þetta veggskraut úr keramiki! Eiginlega er varla hægt að kalla þetta óróa, af því að það er bara glerungur öðrum megin á plötunum, en einhver órói er þarna samt.

Allir þekkja íslenskt hraunkeramik, en ekki þarf að rýna lengi í myndina í miðjunni til að sjá að hér á landi gátu menn líka galdrað fram glóandi kvikukeramikóróadims.

Dýrðin er úr smiðju Hrafnhildar Tove Kjarval og Robin Løkken, í upphafi áttunda áratugs síðustu aldar. Hún Þórdís skrifaði um Kjarval og Løkken hér og hér.

Mun þennan fann ég hjá Kristniboðunum í Austurveri. Klárlega. (Svo maður bregði nú fyrir sig ljótri tísknesku).

Wednesday, March 7, 2012

Sófamál, fyrri hluti

Nú er ég endanlega orðin trítilóð. Keypti hálfrar aldar gamalt sófasett í stíl við blómavasana sem ég hef sankað að mér. Sófasettið var í sjálfu sér ekki mjög dýrt, en það kostar hvítuna úr augunum að láta gera það upp (lofa myndum síðar, sem ég heiti Beta Berndsen).

Lengi hafði ég gengið um húsgagnaverzlanir borgarinnar, auk þess að leita á netlendum, en ekkert fundið. Menn eru nefnilega hættir að kunna að smíða almennilega sófa. Í dag smíða menn klumpa og klessur. Ég vil ekki klumpaklessu.
Nýi gamli sófinn er enginn klumpur, heldur nettur og þægilegur. Blessunarlega laus við fjögrametra feita arma og gagnslausa hlunkatungu. Hann er passlegur.

Síðan var ég að frétta að sófasett þetta hafi upprunalega verið á heimili fyrrverandi bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er sjálfstæðissófi.

Hef einsett mér að láta það ekki trufla mig.