Wednesday, March 7, 2012

Sófamál, fyrri hluti

Nú er ég endanlega orðin trítilóð. Keypti hálfrar aldar gamalt sófasett í stíl við blómavasana sem ég hef sankað að mér. Sófasettið var í sjálfu sér ekki mjög dýrt, en það kostar hvítuna úr augunum að láta gera það upp (lofa myndum síðar, sem ég heiti Beta Berndsen).

Lengi hafði ég gengið um húsgagnaverzlanir borgarinnar, auk þess að leita á netlendum, en ekkert fundið. Menn eru nefnilega hættir að kunna að smíða almennilega sófa. Í dag smíða menn klumpa og klessur. Ég vil ekki klumpaklessu.
Nýi gamli sófinn er enginn klumpur, heldur nettur og þægilegur. Blessunarlega laus við fjögrametra feita arma og gagnslausa hlunkatungu. Hann er passlegur.

Síðan var ég að frétta að sófasett þetta hafi upprunalega verið á heimili fyrrverandi bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er sjálfstæðissófi.

Hef einsett mér að láta það ekki trufla mig.

9 comments:

  1. Ég er einmitt á gægjum eftir gömlu og góðu setti, en ég hef ekki efni á að láta gera það upp, held ég. Ertu búin að því? Það virkar alla vega alveg svaðalega fínt (þrátt fyrir pólitískan uppruna sinn).

    ReplyDelete
  2. Já, það kostar svipað og að kaupa nýtt sett að láta gera upp gamalt.

    Annars var ég bara að sækja settið rétt áðan og keyrði með það beint í bólstrun. Áklæðið lítur ágætlega út, en er orðið ansi lúið á slitflötum og sessurnar lélegar. Ég ætla að hafa mynd af sófasettinu (bólstruðu og fínu) með mér í skuldafangelsið:)

    ReplyDelete
  3. Þetta er skemmtilegur sófi og ég skil þig voðalega vel að vilja sófa með karakter. Sjálf hef ég aldrei keypt mér nýtt. Fallegasta sófasettið sem ég hef haft á heimilinu er gamla sófasettið hennar ömmu minnar ... en því miður var það ekki ætlað mér, heldur var það í geymslu hjá mér þangað til samkeppnisbarnabarnið kom heim frá útlöndum úr námi. Ég er enn í sorgarferli... (það eru ca. 10 ár síðan ég missti það).

    ReplyDelete
  4. Æ, samhúð og enn meiri samhúð! Maður getur lengi grátið gott sett ...

    ReplyDelete
  5. Ég er enn grátandi yfir fallega sófanum hennar ömmu minnar sem hefði kostað fáránlega mikið að senda til Frakklands, en sem enginn vildi í fjölskyldunni. Síðast sá ég þann sófa tróna á veitingahúsi sem var til í smá stund á Skólavörðustígnum. Veit ekki hvað varð um hann þegar sá staður lagði upp laupana. Hér úti kostar mun meira að láta bólstra en að kaupa nýjan sófa. Alla vega ef maður miðar við Ikea-verðin.

    ReplyDelete
  6. Jæja, það hlýtur að skýrast af lágum launum á Íslandi, því þetta kostar svipað og (ekkert sérlega) merkilegt sófasett hér heima.

    Ég skil grátinn þinn. Mamma hefur alltaf grátið gríðarlega fallega stóla sem einhverjir ættingjar okkar hentu á haugana, án þess að spyrja kóng eða prest. Og það var fyrir næstum hálfri öld. Sumir kunna ekki gott að meta.

    Bólstrarinn sagði að settið mitt væri mjög vandað og alveg þess virði að gera upp - hann sagði að það yrði betra en nýtt, vegna þess hve smíðin er góð.

    ReplyDelete
  7. Dásamlegur sófi. Ég ætla ekki að byrja á harmsögu þess sem hent hefur verið í minni ætt, en hún er nokkuð löng. Verst þykir mér eiginlega að hafa misst af kjólunum sem voru í minni stærð....

    ReplyDelete
  8. Einna verst við ný sethúsgögn er óþarfa umfang. Margir fermetrar undir fáeina rassa.

    ReplyDelete
  9. Það er einmitt málið - það fer svo mikið pláss í óþarfa, t.d. rosalega breiða arma og fáránlega djúpar sessur.

    Harpa, þú mátt alveg deila harmsögum hér, við erum ein stór öxl ...

    ReplyDelete