Ég var svo heppin um daginn að vinkona mín gaf mér veggkertastjaka sem smellpassar í eitt safnið mitt (af mörgum). Það er Kjarval og Lökken safnið, sem blæs út á hraða snigilsins, ég er kát ef einn gripur bætist í safnið á ári. Þessir leirmunir heilla blómabarnið í mér upp úr sandölunum. Hér má lesa bráðskemmtilega grein um hjónin og leirlistamennina Tove Kjarval (barnabarn Jóhannesar) og Robin Lökken.
Leirskál, mér finnst hún svo hress og fín þessi.
Leirkrukka, svolítið brotin í sínum seventís sjarma. Fékk hana í vöruskiptum við annan safnara, Helgu.
Þessa krukku fann ég hjá kristniboðunum í Austurveri, hún er nokkuð stór og gæti sennilega flokkast sem leirpottur. Kannski maður ætti að skella ragúi í hann?
Og síðast en ekki síst: Lítil skál merkt HT sem er einmitt fangamark míns ástkæra partners. Reyndar voru þessar skálar framleiddar fyrir eitthvert löngu gleymt tryggingafélag, sem hét Hagtrygging, en það er aukaatriði.