Thursday, July 7, 2011

Flóamarkaður í Norðurmýri

Hef verið lúsiðin undanfarið við gramsið, enda verður maður að eiga boðlegt dót fyrir Stóru flóamessuna á laugardaginn í Norðurmýri.

Þennan krúttþrútna Haldensleben vasa fann ég í dag, hann er pínulítill (u.þ.b. 10 sm hár) en bætir það upp þvervegis. Um daginn hitti ég stóra bróður hans í Góða hirðinum, en það var obbulítið brotið upp úr fætinum á honum, þannig að ég leyfði honum að fara á annað heimili.

Maður er orðinn svo vandlátur, sjáiðitil.


Dönsk hönnun höfðar oft til mín og gladdist ég þegar þennan Digsmed ostabakka rak á fjörur mínar.

Plastkúpullinn ber fortíðina (hálfa öld) þreytulega á herðum sér en trébrettið er annars í toppstandi.

Og tekkhnappurinn á kúplinum er algjör dúlla.

Ég er búin að æfa mig að segja Digsmed með rosalegum kokframburði og hlakka til að leyfa hverjum sem heyra vill, heyra afraksturinn af þrotlausum framburðaræfingum.

Þó að ég fari nú ekki oft í nytjamarkaði til að skoða föt, fann ég mig knúna til að kaupa sölukonulegan kjól. Bláa kjólinn atarna fann ég hjá trúboðunum og verð að játa að mér fannst hann dýr. 1500 krónur takk fyrir. En fínn er hann og tel ég víst að hann muni ljá mér virðulegan blæ.

No comments:

Post a Comment