Sunday, February 5, 2012

Smali, bóndi, hundur, kind og kertastjaki








Í gær fórum við í Kolaportið og rákumst þar á ungan mann sem var að selja leirstyttur og ýmislegt annað dót. Eitthvað við stytturnar greip athygli mína og spurði ég unga manninn hvort hann kynni deili á þeim. Í ljós kom að stytturnar voru málaðar af Magnúsi Þórarinssyni listmálara og var ungi maðurinn einmitt barnabarn Magnúsar.

Magnús heitinn stofnaði og rak Nýja Galleríið á Laugavegi um miðja síðustu öld. Hann bjó á Bergstaðastræti og þar fór eitthvað í taugarnar á honum rýmið, eitthvað sem honum fannst ekki ganga upp. Hann tók sig til einn góðan veðurdag og reif niður vegg og kom þá í ljós herbergiskytra sem hafði alveg verið lokuð af. Þar fundust kassar fullir af leirgripum sem enginn veit hver bjó til. Magnús tók að mála leirmunina, og væntanlega selja í Galleríinu sínu.

Ég gat ekki annað en keypt nokkra gripi eftir að hafa heyrt sögu þeirra. Og þjóðlegri gerast styttur varla, bændur að draga í dilka, taka í nefið, og smaladrengur með hundinn sinn. Ég hefði alveg getað hugsað mér að eignast fleiri, en hamdi mig. Sé samt pínulítið eftir að hafa ekki keypt krókódílinn og landnámshænuna líka.

Mér finnst eitthvað viðkunnanlegt við kertastjakann, þótt hann teljist seint með fínlegri hlutum. En nú langar mig að fá að vita meira um Magnús Þórarinsson, ætli ég leggist ekki í meira grúsk.

Góðar stundir.

4 comments:

  1. Já, það getur verið ágætt að bregða sér í Kolaportið. Ég kaupi t.d. oft brodd þar, og stundum snúða frá Selfossi:)

    ReplyDelete
  2. Þetta er nú alveg eins og skemmtileg lygasaga. Og þeir eru óneitanlega dálítið sætir. Voru engar myndarlegar konur með hrífur? Jæja, maður getur víst ekki fengið allt... Kertastjakann myndi ég setja í jólakassann, mér sýnist hann ansi jólalegur. Með kveðju frá París.

    ReplyDelete
  3. Stytturnar eru ótrúlega skemmtilegar.

    ReplyDelete