
Haldið ekki að ég hafi unnið svaka sætan páskadúk hjá
form55 blogginu! Nú er mér aldeilis dillað. Væri til í að halda svona keppni sjálf, nóg á ég af dóti. Gallinn er reyndar sá að aðeins örfáir lesa dótabloggið mitt, þannig að líkurnar á að vinna væru sennilega 1:4. Sem er ekki slæmt fyrir þessa fjóra.
Augljóslega er munablæti mun vinsælla í Svíþjóð en á Íslandi. Og Svíar eru býsna avanseraðir í dótagramsi, ég hef t.d. skemmt mér bærilega við að horfa á
svona pælingar. Eldlegur áhugi sænskra frænda okkar á gömlu dóti fer ekki milli mála, má nefna að sunnudaginn 19.júní nk. verða um
hundrað flóamarkaðir á Skáni,
sjá hér. Og það er ekkert óvenjulegt að sumri til, eftir því sem ég kemst næst.

Blómapotturinn prýðilegi er íslenskur, merktur
Iceland, SA, hand made. Veit ekki hver SA var/er. Af hraunkeramiki að vera, er þetta ekki sem verst.
Þessi hér, eftir sama skapara, er sem verst.
Skömm að því hvað ég veit lítið um íslenskt keramik, en hvernig á ég að fræðast um það? Ekki hafa verið gefnar út handbækur um íslenskt keramik og Gúggli frændi þegir þunnu hljóði þegar ég spyr (eða réttara sagt: hann talar um nýtt/nýlegt keramik).
Hér eru reyndar fróðlegar upplýsingar um íslenskan leir og
Þórdís benti mér á
þetta skemmtilega viðtal.