Mikið er indælt að vera í páskafríi. Búin að vera dugleg að taka til og snurfusa, svo nýbólstraða sófasettinu líði eins og heima hjá sér. Það er nefnilega fínt með sig, og verður það þangað til ég verð amma og barnabörnin mæta á svæðið með græna frostpinna. Hvenær sem það nú verður *andvarp*
Um daginn fann ég þessa fallegu blómamynd á nytjamarkaði, ramminn og glerið voru svo krímug að varla sást í blómin. Ég hélt þetta væri prentuð mynd en þegar ég tók hana úr rammanum sá ég að hún er máluð og signeruð. Aftan á myndinni er miði með ágætum skýringum á rússnesku. Mér þætti fengur í að vita hvað stendur á miðanum, en kann ekkert í rússkí. Þigg gjarnan hjálp, ef hjálp er að fá meðal lesenda minna (allra fimm).
Svo ég vaði nú úr einu í annað. Hjólaði áðan niður í bæ í rigningunni og kom við í Rokki og rósum. Er að leita mér að kjól fyrir brúðkaup dóttur minnar í sumar, ætlaði að hafa tímann fyrir mér svo ég yrði ekki í stresskasti á síðustu stundu.
Held að þessi græni kjóll með fislétta sjiffonpilsinu og dásamlega fóðrinu (ólýsanlegt á litinn, sanserað dumbfjólublátt) sé kjóllinn. Fyrir móður brúðarinnar.
Nú vantar mig sjal, grátt eða silfurlitt, lekkert og þunnt sem köngulóarvef. Ég á nefnilega skæslega silfurskó.