Thursday, November 25, 2010

Vex

Magn í eina fötu (10 lítra).
Nota skal 3-4 kúfaðar matskeiðar (eftir því hve tauið er óhreint) fyrir þvott í bölum eða í suðu. Ef þvegið er í vélum, skal nota 2-3 matskeiðar.

Vex er bezt
einnig í hörðu vatni í þvottavélina, til hreingerninga, til uppþvotta.

Fyrir tæpum 30 árum, þegar ég bjó í Vesturbænum, keypti ég þennan þvottaefnispakka hjá kaupmanninum á horninu. Mér fannst pakkinn bæði forn og skondinn, og gaf fyrir hann 15 krónur. Svo notaði ég aldrei þvottaefnið, tímdi því eiginlega ekki, þótt lítið vit sé í að taka ástfóstri við þvottaefnispakka. Löngu eftir kaupin komst ég að því að hinar barnungu fyrirsætur á bakhlið pakkans eru systkinin Jón frændi (í rauðri skyrtu) og Steinunn frænka (í gulum kjól).Eftir þriggja áratuga sambúð með mér, og langa myrka fortíð þar á undan, er pakkinn lúinn en heillegur. Gat er milli augna konunnar á framhliðinni (við skulum kalla hana Dóru). Það kom fyrir slysni, og út rann hvítt duft (natriumperborat, polyfosföt, CMC og ljósvirk bleikiefni).

Vex er efni sem aldrei bregzt.

4 comments:

  1. *tíhí* ég fann alveg vex lyktina þegar ég las þetta!

    ReplyDelete
  2. ég óx upp með þessum vex pakka.

    ReplyDelete
  3. Já, maður vex svo vel:)

    Sigga, það er ennþá fínasta lykt af duftinu, eðalstöff!

    ReplyDelete
  4. Ingimar Eydal auglýsti í sjónvarpinu um árið: Vex eyðir fitu á augabragði. Hann grenntist þó ekkert blessaður.

    ReplyDelete