Sunday, February 13, 2011

Vættir

Móðuramma mín hét Elísabet Ágústa Jónsdóttir Dungal (1898-1983), og var ég skírð í höfuðið á þeirri mætu konu.
Öskubakkann með landvættunum gróf ég upp úr kassa með dóti sem átti að henda, þegar verið var að sortera muni í dánarbúi hennar. Hann var ekki félegur að sjá, þakinn ösku og ullabjakki, enda alla tíð verið notaður í upprunalegum tilgangi (amma reykti aldrei sjálf, en einn heimilismanna reykti ótæpilega). Bakkinn er ekki stór (10 sm í þvermál), en blýþungur. Vafalaust steyptur úr blýi.

Eftir að hafa skafið mestu drulluna af bakkanum, sá ég að tarna var virkilega snotur gripur og hef passað vel upp á hann síðan. Hef ekki hugmynd um hvað hann er gamall nákvæmlega, eða hver bjó hann til, en íslenskur hlýtur hann að vera. Mér hefur löngum þótt sérstakt hvað Austurland er klesst, rétt eins og drekinn hafi tyllt sér eldsnöggt í það óþægilega sæti, stungið sig á fjallstindi og flogið skrækjandi upp aftur.

Ef einhver kannast við mun af þessi tagi, þætti mér vænt um að heyra af því.

6 comments:

  1. Ég hef ákveðið að birta ekki illkvittnar og leiðinlegar athugasemdir hér, nema frá fólki sem gerir grein fyrir sér (það er nú lágmark). Nafnleysingjaaumingjaskap nenni ég ekki hér.

    ReplyDelete
  2. Þetta er fallegur gripur og eins og stundum er ekkert sem segir að þetta skuli vera öskubakki?

    ReplyDelete
  3. Það er alveg rétt hjá þér, Ella. En hann er eiginlega of grunnur til að geta nýst sem nammiskál eða eitthvað því um líkt. Fínn skrautmunur samt, það er nóg.

    ReplyDelete
  4. Svona pínudiskar heita vasatæmarar á frönsku (vide-poches). Það þykir gott að hafa eitt svona á t.d. ofnhillunni, eða einhverri huggulegri mubblu við útidyrnar á íbúðinni, til að geta tæmt úr jakkavasanum ef ske kynni að maður fari í öðrum jakka út næst.
    Ég bara neita að trúa því að hér sé verið með illgirni og er gersamlega sammála þér um að kæfa allt slíkt í fæðingu. Skil nú betur af hverju athugasemd mín (um hundinn) bíður samþykkis, ég hélt kannski að þú værir með síu á orðið Pjattrófur.

    ReplyDelete
  5. Það liggur nú við að það sé goðgá að drepa í sígarettu á landvættunum. Þessi er fínn (en mér finnst hann samt svolítið nasjónalsósíalístískur).

    ReplyDelete
  6. Kristín, vasatæmari er frábært hugtak! Og þénugur gripur:)

    Krummi, já, bakkinn er vissulega "þjóðlegur", en er hann endilega "þjóðernislegur"? Veit ekki...

    ReplyDelete