Saturday, September 24, 2011

Einn hár, einn feitur og einn blár

Hér kynni ég til sögunnar þrjá vasa sem líklega eru af skandinavísku bergi brotnir.

Þessi undarlega lagaði vasi er frá Aseda, ef mér skjöplast ekki. Það er ómögulegt að taka góða mynd af honum, hann þverneitar að vera í fókus. Meiri kjáninn.


Kúluvasinn minn er næstum örugglega frá Orrefors, OF er rispað í botninn og hef ég séð dæmi um slíkar merkingar frá Orrefors á alnetinu góða. Þessi vasi er miklu fallegri í eigin persónu en myndin gefur til kynna, ég er suddalega sæl með hann.
Sá þriðji er af óljósum uppruna, dálítið líkur Alsterfors vösum, en ég veit ekki ...
Gildir einu, hann er svo fallega blár að hann mætti vera úr brjóstsykri fyrir mér.

Að endingu vil ég minna alla unnendur vandaðra muna með fortíð, á flóamarkaðinn okkar Þórdísar, EIGULEGT.

Takk fyrir!

1 comment:

  1. Eigulegt er orðin hættulegasta búðin. Alltaf eitthvað sem mann langar í, þó maður búi í konungsríki gramsarans. Mér finnst kringlótti vasinn algert æði, þó hinir séu reyndar líka afar fínir.

    ReplyDelete