
Einu sinni var kona sem fæddist með þeim ósköpum að hafa dálæti á gömlu dóti. Helst gömlu skrítnu dóti, jafnvel munum sem hún hafði ekki hugmynd um hvað ætti að gera við. Hér má sjá þrjú dæmi, því þessi kona er einmitt hún ég.
Á efstu myndinni má sjá hlut. Hann er úr tré og mætti lýsa sem knerri sem skagar upp úr einhvers konar bakka, eða fæti, með þremur holum. Holurnar eru sirka 2 sm í þvermál og lakkaðar í botninn með glansandi bláu lakki.

Næst sjáum við grip úr keramiki. Ekki er þetta kertastjaki og varla eggjabikar. Hvað þá?

Þriðji hluturinn hefur valdið heilabrotum með skruðningum í höfði. Um er að ræða bakka/fót/disk úr keramiki og tveimur skálum með loki.

Í hvorri skál liggur innri glerskál sem auðvelt er að fjarlægja.


Fyrirbærið er á að giska 12 sm breitt. Séð ofan frá er það eins og froskur. Kannski þetta sé froskur.
Og nú væri ekki ónýtt að fá tilgátur um meinta nytsemi ofangreindra muna, takk fyrir. Sláið í klárinn!