
Nú er ég endanlega orðin trítilóð. Keypti hálfrar aldar gamalt sófasett í stíl við blómavasana sem ég hef sankað að mér. Sófasettið var í sjálfu sér ekki mjög dýrt, en það kostar hvítuna úr augunum að láta gera það upp (lofa myndum síðar, sem ég heiti Beta Berndsen).
Lengi hafði ég gengið um húsgagnaverzlanir borgarinnar, auk þess að leita á netlendum, en ekkert fundið. Menn eru nefnilega hættir að kunna að smíða almennilega sófa. Í dag smíða menn klumpa og klessur. Ég vil ekki klumpaklessu.

Nýi gamli sófinn er enginn klumpur, heldur nettur og þægilegur. Blessunarlega laus við fjögrametra feita arma og gagnslausa hlunkatungu. Hann er passlegur.
Síðan var ég að frétta að sófasett þetta hafi upprunalega verið á heimili fyrrverandi bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er sjálfstæðissófi.
Hef einsett mér að láta það ekki trufla mig.