Sunday, September 23, 2012

Stokkhólmssyndrómið

Fór í þriggja daga vinnuferð til Stokkhólms og mátti hafa mig alla við, allan tímann, til að æpa ekki OMG! OMG! og jafnvel OMG!!! eins og hver önnur frónversk gelgja.

Ég kolféll sumsé fyrir Stokkhólmi, sem er ekki bara óendanlega falleg borg heldur er þar sérlega afslappað og vingjarnlegt andrúmsloft. Fólk var líka almennt svo velmegunarlegt, lekkert og frítt, ég gat ekki annað en velt fyrir mér hvar Svíar geymi ljótu þegnana. Mér finnst Stokkhólmur á að giska sprilljón sinnum fallegri og skemmtilegri borg en Kaupmannahöfn. Og þótt ég hafi lært dönsku í mörg ár og aldrei sænsku, gekk mér miklu betur að skilja og tala sænsku en dönsku. Sem er enn undarlegra þegar maður tekur með í reikninginn að ég hef oft verið í Danmörku en eiginlega aldrei komið til Svíþjóðar áður (bara verið dagpart í Lundi og Málmey).

Ef ykkur langar að skoða myndir af Stokkhólmi í kvöldsól og svoleiðis, verðið þið að myndagúggla. En hér koma myndir af ýmsu sem mér fannst áhugavert í Stokkhólmi.
 Risastórar dalíur í almenningsgarði, mér var hugsað til ræflanna sem hafa verið að berjast við að springa út úti á svölum hjá mér, en íslenska sumarið dugði ekki til. Til eru fræ og allt það ...
Lítill fugl sem heilsaði upp á mig á kaffihúsi á Skeppsholmen. Eftir að hafa fengið sér vatnssopa hoppaði hann niður og hámaði  í sig smjör (ég nennti ekkert að trufla hann með röfli um transfitusýrur og svoleiðis). Ég var reyndar mun heppnari en gamla konan á næsta borði sem varð fyrir árás mávs á stærð við Volvo.
















Jú, auðvitað notaði ég frítímann í að skoða Moderna museet, Gamlastan, kirkjur, menningarlega hluti og gömul hús. En líka Myrorna, Stockholms Stadsmission og Emmaus Söder. Það kom mér á óvart hvað allt var snyrtilegt, hreint, vel skipulagt og ... dýrt í þessum nytjamörkuðum. 

Og þá velti ég fyrir mér hvað sænskir nytjamarkaðir geri við draslið sem þeir fá gefins, fjöldaframleidda krappið sem Góði hirðirinn og slíkar búðir eru fullar af (þótt þar sé líka fínt dót inn á milli). Er lélega og ósmekklega draslið hjá ljóta fólkinu? Maður spyr sig.

 En mikið rosalega var gaman að skoða, og vitaskuld féll ég í freistni og keypti nokkra hluti. Sem mig bráðvantaði!

5 comments:

  1. Mér sýnist þú aldeilis hafa gert góða ferð til Stokkhólms :) Er sammála þér, þetta er skemmtileg borg að heimsækja.

    ReplyDelete
  2. Afar sammála með sænskuna. Er ekki langskemmtilegast að komast á alvöru flóamarkaði í þessum löndum? Þá er líklega hentugast að þekkja einhverja innfædda eða að minnsta kosti búsetta í landinu. Svona markaðir eins og þú myndaðir eru eiginlega komnir "upp" á einhverskonar snobbstig með tilheyrandi verðlagningu. Ég reyndar fann ágætis markaði í Horsens fyrir fáum árum.

    ReplyDelete
  3. Hrikalega erfitt að giska rétt á hver staðfestingartextinn er á þessu bloggi. Ég taldi ekki atrennurnar ekki núna.

    ReplyDelete
  4. eru þessir markaðir sem þú nefnir allt svona góðgerðarmarkaðir eða er þetta einkabissness?

    það hljóta að vera góðgerðarsjoppur með draslinu einhverstaðar

    ReplyDelete
  5. Já, þeir eru leiðinlegir þessir staðfestingartextar á bloggum, og hjá sumum er varla hægt að kommenta fyrir hindrunum lengur.

    En þessar búðir heita Myrorna og Stadsmissionen og ég held að þær séu reknar á svipaðan hátt og Góði hirðirinn. Eina leiðin til að gera góð kaup í þessum bransa er sennilega að fara á "loppis" sem eru úti um allt á sumrin í Svíþjóð. Mig langar mjög mikið að fara á flóamarkaði þarna, held það gæti verið rosalega skemmtilegt. Og hvar ómerkilega draslið er? Ég hreinlega veit það ekki.

    ReplyDelete