Lifandis ósköp er annars gaman að hafa herbergi til að innrétta bara fyrir sig (þ.e. ekki barnaherbergi). Fyrsta skipti sem ég upplifi slíkan lúxus í minni búskapartíð.
Rauða vasann búttaða fann ég í Góða og keypti þrátt fyrir okurprís (900 kall). Vasinn er vestur þýskur, gæti verið Dümler & Breiden (á eftir að grúska meira til að bera kennsl á framleiðanda). Rauður minn er sterkur stór (stinnur mjög til ferðalags), nenni ekki að mæla en hann er ábyggilega 30 sm hár og býsna sver.
Ég hef það sterkt á tilfinningunni að nytjamarkaðir hafi snarhækkað verð á skrani undanfarið, ekki hvað síst Góði hirðirinn.
Kristniboðarnir fara samt trúlega (haha) fremstir í flokki hvað þetta varðar, held að þeir eigi hæsta verðið á nytjamarkaðnum (fyrir utan Fríðu frænku og svoleiðis búðir sem tengjast ekki góðgerðastarfsemi). Samhjálp, ABC og Herinn eru enn með býsna gott verð. Svona almennt og yfirleitt. Vitaskuld erfitt að gera verðkönnun a la Neytendasamtökin, en þó væri hægt að bera saman verð á fondú-settum. Ég hef nefnilega komist að því að fondú-sett eru algengir gripir meðal gripa sem enginn vill eiga.
Að öðru. Þessi blái glervasi varð minn nýlega og ég veit að ég hef séð svipaðan einhvers staðar en kem því ekki fyrir mig. Ergilegt.
Vasanum má snúa við og þá verður hann kertastjaki, barbabrella. Hann er tvöfaldur í glerinu þessi gaur.
Munum svo öll eftir flóamarkaðnum í Norðurmýri, þar verður fjör (og mögulega eitt eða tvö fondú-sett).
Viðbót: Kevin Graham feitleirssérfræðingur, segir að rauði vasinn sé framleiddur af Ilkra Edel Keramik. Og þá vitum við það.
Önnur viðbót: Glervasinn er tékkneskur og um hann má lesa hér.