Friday, June 3, 2011

Frídagsgramsferðalag

Í dag átti ég frí. Vafalítið kemur það einhverjum á óvart, en dagurinn fór að nokkru leyti í ráp um nytjamarkaði höfuðborgarsvæðisins. Dró mömmu gömlu með, þannig að félagsskapurinn var súper fínn. Enduðum á Café Haítí í eplaköku með karamellu og úrvals kaffi. Alveg óleiðinleg ferð, getið sveiað ykkur upp á það.

Rúnturinn hófst í Góða hirðinum um hádegisbil og hef ég aldrei séð annað eins. Troðningurinn var slíkur að jafnaðist á við neðanjarðarlest í Tokyo (á annatíma). Við móðir mín ésúuðum okkur gegnum þvöguna. Undum ekki lengi þar inni, en ég náði að grípa þrjár desertskálar, tvö púrtvínsglös, einn japanskan kertastjaka og tvær danskar dollur. Mamma tvo blómapotta. Og biðröðin var ógnarlöng. Úff púff, Góði hirðirinn er allt of vinsæll.

Næst lá leiðin í Austurver, til kristniboðanna. Þar keypti ég einn lítinn disk og ljóðabók fyrir unglinga. Síðan fórum við í Samhjálp, þar var gaman. Keypti tvær skálar, Haldensleben vasa, austantjaldslega kúpu og græna sinnepskrukku.
Sinnepskrukkan er býsna dúlluleg og náttúrlega sænsk. Grænn, grænn, grænn, er leirinn hennar baunar...
Þessi undarlega kúpa var hjá Samhjálp. Hún er þunglamaleg en samt svo...vinaleg...og græn.
Hef ekki hugmynd um hvaðan hún er, en merkingin er svona:
Hjá nytjamarkaði ABC fann ég þessa vönduðu piparkvörn frá Bodum, alveg í stíl við hnetubrjót sem ég keypti hér um árið fyrir hvítuna úr augunum. Kvörnin kostaði mig eitt hundrað krónur.
Ísfötuna keypti ég líka hjá ABC, þetta er fantafín dönsk spanda. Patent laus rist í botninum og ístöng fylgir með. Veit ekki hvernig við höfum plummað okkur hingað til ísfötulaus á heimilinu, en nú verður slíku hokri hætt.

Gin og tóník, anyone?

8 comments:

  1. Þetta er postulínsfabrikkan Beyer & Bock í Thüringen.

    ReplyDelete
  2. Flott smjörkúpan.

    ReplyDelete
  3. Takk Gunnar:) Hér er tengill á Beyer og Bock: http://www.porzellankompass.de/index.php?module=Pagesetter&func=viewpub&tid=2&pid=134

    Gleymdi að minnast á Herinn úti á Granda, en þar fann ég eiginlega ekkert eigulegt í þetta skipti (eina litla saltskál).

    ReplyDelete
  4. Guð, hvað það væri örugglega gaman hafa þig með í markaðsleiðangur í útlöndum. Grams, grams, grams...þú ert svo klár að finna skemmtilega hluti.

    ReplyDelete
  5. Takk fyrir hlýleg orð Guðrún:) Mig dreymir um að komast til Svíþjóðar á "loppis", sé það alveg í hillingum...

    ReplyDelete
  6. Aldeilis munur að geta nú loks fengið pipar á hneturnar.

    ReplyDelete
  7. Þetta hefur aldeilis verið dagur að mínu skapi! Allt frá ráp á markaði, gott kaffi og eplakaka. Alexander keypti sér alveg dúndur sixtís eða snemmseventís sófasett fyrir skít á priki í Góða hirðinum um daginn. En hann þurfti að hafa mikið fyrir því að halda settinu í þetta korter þar til hann var búinn að borga það. Slíkur var ágangur þeirra sem vildu kaupa settið eftir að hann var búinn að láta taka það frá.

    ReplyDelete
  8. Segðu, Ella.

    Sigga, flott hjá Alexander. Það þarf ákveðna þolinmæði og þrautsegju í húsgagnaleit af þessu tagi, að ég nú ekki tali um mömmu sem getur setið sem fastast í fráteknum húsgögnum;)

    ReplyDelete