Saturday, June 4, 2011

Ligga ligga látún

Veit ekki hvað er að gerast, en allt í einu eru uppsprottnir nytjamarkaðir hér og þar, t.d. Samhjálp, Góði hirðirinn, ABC, Herinn o.fl. á höfuðborgarsvæðinu, Búkolla á Akranesi og einhverjir markaðir fyrir norðan sem ég kann ekki að nefna, en stefni á að kanna í sumar.

Að auki líður nú varla sú helgi að ekki sé í boði einhvers konar skranmarkaður á götum og torgum. Bara tímaspursmál hvenær bílskúrssölur eins og tíðkast í Amríkunni verða daglegt brauð.

Þetta er góð þróun. Til hvers að kaupa nýtt ef nýta má gamalt?

Við skötuhjúin vöfruðum á Eiðistorg í dag, og ætlaði ég bara að skoða, ekkert að kaupa. Rakst á vingjarnlega eldri dömu sem var að selja ýmiskonar dót, að sögn vegna flutnings í minna húsnæði. Áttum við ágætt spjall sem gekk svolítið út á andprútt, manneskjan var lélegri í verðlagningu en ég. Það sem sést á efri myndinni keypti ég að lokum fyrir 1300 krónur. Og er alsæl með það.

Kertastjakarnir rauðu eru úr kopar og rauðmáluðu tré. Guðdómlegir, ef einhver spyr mig.

Stundum hef ég áhyggjur af hlutablætinu, og stundum ekki. Þetta hlýtur að ganga yfir áður en það verður yfirgengilegt.

Ég meina, hversu marga kertastjaka getur ein kona átt? Hljóta að vera takmörk fyrir því.

Mögulega er hægt að gera eitthvað skynsamlegra við aurinn en að kaupa skran. Til dæmis að kaupa skran og blogga um það. Þá er komið bókmenntalegt ívaf í áhugamálið, sem lyftir því upp á örlítið hærra plan.

Þetta er Elísabet frá Látúni sem talar.

4 comments:

  1. Ég er alls ekki viss um að þér eigi eftir að batna.

    ReplyDelete
  2. Skemmtilegir hlutir atarna :-) Hvernær varstu á ferðinni - sá ekki þessa gömlu konu...

    En ég keypti mér látúnshöldur, sem ég á eftir að finna not fyrir og blálitaðan silfurskotinn vasa...og svolítið af fötum sem pössuðu svo ekki öll á mig, en svona eru markaðir - stundum gengur allt upp, stundum ekki alveg.

    ReplyDelete
  3. Ella, aldrei að vita.

    Guðrún, við vorum á ferðinni um hálf 12 minnir mig. En ég er sammála, það var eiginlega fátt til sölu þarna annað en föt. Legg sjaldan í að kaupa föt á svona mörkuðum...en hvernig væri að birta mynd af góssinu þínu svo við sjáum "samhengi hlutanna?" (nudge nudge, wink wink)

    ReplyDelete
  4. Mikið er þetta dásamlega fallegt!

    Ég hef reyndar afskaplega góða reynslu af því að kaupa föt á mörkuðum. Maður þarf bara að vera duglegur að skoða vel, tékka sliti og svona. En ég gerði mjög góð fatakaup í þetta eina skipti sem ég hef komist á Eiðistorg, er til dæmis í ákaflega fínni skyrtu akkúrat núna sem ég keypti þar á 500 krónur.

    ReplyDelete