
Sérdeilis góður dagur í dag. Hann hófst á indælu morgunverðarboði hjá fyrirmynd minni og uppáhalds dótabloggara, henni
Þórdísi. Síðan lá leiðin á markað í gamla heimabænum, Kópavogi. Hamraborgin er rislítill miðbær, en þessi markaður var flottur og blés lífi í malbikssteypuumhverfið. Það sem gerði markaðinn öðrum betri var auðvitað veðrið, og svo tónlistin. Slatti af fólki að spila og syngja (áhugaverð kakófónína á köflum) og skælbrosandi eldri borgarar að sýna dans (allir í fantasveiflu og eins jogginggöllum). Vildi að ég hefði tekið myndavélina með, þetta var svo skemmtilegt.
Á efstu myndinni má sjá megnið af því sem ég keypti. Einna ánægðust er ég með vandaða ítalska leðurtösku (1000 kr.).

Þessar desertskálar eru fagurgrænar og þar af leiðandi velkomnar á heimilið.

Íslenzkar kvenhetjur, útg. 1948. Frábær titill, hlakka til að glugga í þessa skruddu.
Royal Copenhagen Fajance kertastjakann keypti ég af fyrrum samstarfskonu minni, henni Gunnhildi. Mér finnst hann svaka fallegur.

Og svo enn einn blómapottinn, ég á orðið laglegt safn. Þetta er stór koparpottur, últra svalur (kr. 300).
Eftir markaðsgramsið lá leið okkar Hjálmars í Kost, þar sem við keyptum allskonar skrítinn mat, t.d. kanilséríós, kókos m&m og hnetusmjörsnammi. Síðan fórum við heim og ég bjó til rabbarbarasultu og rifsberjahlaup. Osom.
Lifi Kópavogur.
Smá viðbót: Samkvæmt netrannsóknum er kertastjakinn blái hannaður af Berte Jessen fyrir Royal Copenhagen á sjöunda áratugnum.