Friday, March 25, 2011

Páskadúkur væntanlegur og hraunkeramik prýðilegt

Haldið ekki að ég hafi unnið svaka sætan páskadúk hjá form55 blogginu! Nú er mér aldeilis dillað. Væri til í að halda svona keppni sjálf, nóg á ég af dóti. Gallinn er reyndar sá að aðeins örfáir lesa dótabloggið mitt, þannig að líkurnar á að vinna væru sennilega 1:4. Sem er ekki slæmt fyrir þessa fjóra.

Augljóslega er munablæti mun vinsælla í Svíþjóð en á Íslandi. Og Svíar eru býsna avanseraðir í dótagramsi, ég hef t.d. skemmt mér bærilega við að horfa á svona pælingar. Eldlegur áhugi sænskra frænda okkar á gömlu dóti fer ekki milli mála, má nefna að sunnudaginn 19.júní nk. verða um hundrað flóamarkaðir á Skáni, sjá hér. Og það er ekkert óvenjulegt að sumri til, eftir því sem ég kemst næst.Blómapotturinn prýðilegi er íslenskur, merktur Iceland, SA, hand made. Veit ekki hver SA var/er. Af hraunkeramiki að vera, er þetta ekki sem verst. Þessi hér, eftir sama skapara, er sem verst.

Skömm að því hvað ég veit lítið um íslenskt keramik, en hvernig á ég að fræðast um það? Ekki hafa verið gefnar út handbækur um íslenskt keramik og Gúggli frændi þegir þunnu hljóði þegar ég spyr (eða réttara sagt: hann talar um nýtt/nýlegt keramik). Hér eru reyndar fróðlegar upplýsingar um íslenskan leir og Þórdís benti mér á þetta skemmtilega viðtal.

7 comments:

  1. Þú ert ógó heppin með páskadúkinn.
    Íslendingar eru einstaklega lélegir í ýmsu, t.d. að kunna að meta sögulega hluti. Margir eru líka svo miklir kjánar að þeir kaupa frekar fjöldaframleitt og umhverfisfjandamlegt drasl sem þrælar og börn í þriðja heiminum búa til en að kaupa vandaða og ódýra vöru á flóamörkuðum. þetta á bæði við um vefnaðarvöru og borðbúnað.
    Það er nú svosem ekki mjög margt að vita um íslenskt keramik, ætli Guðmundur frá Miðdal hafi ekki byrjað, svo voru örfáir í þessu, t.d. Björgvin á Sjónarhóli við Sogaveg og Ragnar Kjartansson og svo kom Glit og síðan Kjarval og Lökken, Haukur Dór o.s.frv.. Ætli SA hafi ekki verið að vinna hjá Glit og farið svo út í eigin framleiðslu? Það er hellingur til af ljótu dóti sem viðkomandi hefur gert. Maður finnur ýmislegt á timarit.is ef maður slær t.d. inn "leirmunagerð".

    ReplyDelete
  2. Hér er til dæmis nokkurra síðna grein um Glit.
    http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3165559&issId=233052&lang=4

    ReplyDelete
  3. Kærar þakkir Þórdís, þetta var fróðlegt viðtal.

    Við eldri færslu hér f. neðan, rakst ég á þetta komment:

    "Guðný Þórarinsdóttir said...

    Það verður svaka fínn markaður á Eiðistorgi 9. apríl. Allir velkomnir að selja og kaupa!"

    Eigum við að skella okkur á þennan markað?

    ReplyDelete
  4. Heldur betur, ég er einmitt búin að bjóða Hjálmari á feisbúkk og ætla sko að mæta. Ég held samt að ég eigi ekki neitt til að selja í bili.

    ReplyDelete
  5. Sárgrætilegt er auðvitað að við erum nýbúin að fara með nokkra kassa af flottu dóti í Góða hirðinn (úr dánarbúi o.fl.). En, svona er lífið, það kemur dót eftir þetta dót.

    Heyrumst:)

    ReplyDelete
  6. Ég ætla að mæta á þennan markað og kannski kaupa smá ef á finn eitthvað skemmtilegt!

    ReplyDelete
  7. Listamaðurinn hét Sigurður Hákon Arnórsson (1927-2010)
    Ég hef séð styttur eftir hann hjá Gallerí Fold t.d. rjúpu og hund.
    Ég keypti öskubakka á nytjamarkaði merktan SA og fór að kanna málið.

    Kveðja Heiða

    ReplyDelete