Wednesday, March 30, 2011

Páskadúkur og páskóttar vangaveltur

Í dag fékk ég skemmtilega sendingu í pósti. Páskadúkurinn, penn og upprúllaður í brúnu umslagi sem þakið var litfögrum sænskum frímerkjum. Hreinn unaður. Takk Jan/form55!
Nú hlakka ég enn meira til páska. Hef reyndar aldrei verið neitt sérstakt páskabarn, borða ekki einu sinni páskaegg. Nammið þykir mér oft ágætt, en súkkulaðið álíka ætt og unginn.

Maður bíður vitaskuld rólegur og vær eftir páskasveinum, páskagjöfum, páskalögum og auðvitað páskaösinni.

En páskadúkurinn, hann er kominn.

Sunday, March 27, 2011

Buskabaukur

Svo segja mér heimildir að Hjálmar hafi allmargri kökunni stolið úr þessari krús, þegar hann var að alast upp hjá fóstru sinni.

Baukurinn gamli er skreyttur fimm ljósmyndum frá Grænlandi. Hann er nokkuð stór, 12x21x21 sm.








Lítill pjakkur í félagsskap sleðahunds. Í fjarska sést par koma kjagandi af næsta bæ.












Og hér eru sjö forvitnir sleðahundar. Ábyggilega að ígrunda hvernig ketið af ljósmyndaranum bragðist.











Fjörður í firð og einmana bátur.













Rennilegt fley, ég átta mig ekki á fánanum, en hann er þó rauður og hvítur. Ætli þetta sé ekki eitthvert konungaslekti að heimsækja litla fólkið í Grænlandi.











Á lokinu er lítil stúlka í fögru umhverfi. Í hvert horn raða sér dýr: selur, hreindýr, hvítabjörn og kind.

Telpan horfir fjarrænum augum út í buskann. Ætli hún sé ekki þar í dag.

Friday, March 25, 2011

Páskadúkur væntanlegur og hraunkeramik prýðilegt

Haldið ekki að ég hafi unnið svaka sætan páskadúk hjá form55 blogginu! Nú er mér aldeilis dillað. Væri til í að halda svona keppni sjálf, nóg á ég af dóti. Gallinn er reyndar sá að aðeins örfáir lesa dótabloggið mitt, þannig að líkurnar á að vinna væru sennilega 1:4. Sem er ekki slæmt fyrir þessa fjóra.

Augljóslega er munablæti mun vinsælla í Svíþjóð en á Íslandi. Og Svíar eru býsna avanseraðir í dótagramsi, ég hef t.d. skemmt mér bærilega við að horfa á svona pælingar. Eldlegur áhugi sænskra frænda okkar á gömlu dóti fer ekki milli mála, má nefna að sunnudaginn 19.júní nk. verða um hundrað flóamarkaðir á Skáni, sjá hér. Og það er ekkert óvenjulegt að sumri til, eftir því sem ég kemst næst.Blómapotturinn prýðilegi er íslenskur, merktur Iceland, SA, hand made. Veit ekki hver SA var/er. Af hraunkeramiki að vera, er þetta ekki sem verst. Þessi hér, eftir sama skapara, er sem verst.

Skömm að því hvað ég veit lítið um íslenskt keramik, en hvernig á ég að fræðast um það? Ekki hafa verið gefnar út handbækur um íslenskt keramik og Gúggli frændi þegir þunnu hljóði þegar ég spyr (eða réttara sagt: hann talar um nýtt/nýlegt keramik). Hér eru reyndar fróðlegar upplýsingar um íslenskan leir og Þórdís benti mér á þetta skemmtilega viðtal.

Monday, March 21, 2011

Grænbaunagleði






Hann er kominn. Pakkinn sem ég hef beðið eftir. Loksins. Grænu baunirnar mínar fjórar. Allar við góða heilsu, hamingja hamingja...

Kertastjakarnir eru úr (dásamlega) grænu gleri og látúni (eða kopar, er ekki viss). Samkvæmt merkingu eru þeir búnir til í Svíþjóð og væri gaman að vita nánari deili á þeim, en það er ekki mikið að græða á miðanum bláa.

Kannski get ég notað stjakana sem óhefðbundinn aðventukrans, hver veit?

Viðbót: Fékk ábendingu frá þessum fínu bloggurum um að kertastjakarnir væru framleiddir af Lindshammar - Gunnar Ander, sjá mynd hér (það þarf að skruna svolítið niður til að sjá stjakana).

Thursday, March 17, 2011

Munir og munaðarleysingjar

Hér gefur að líta sundurleitt safn ýmissa krukkna sem mér hafa áskotnast héðan og þaðan, m.a. bolla frá Finnlandi (Arabia), norska grænkrukku, sænska blákrukku með eyru og einn blómálf frá Skotlandi.
Man ekki hvar ég fékk þennan græna bolla. Hann er úr stelli sem nefnist Totem, hannað árið 1963 af Susan Williams-Ellis.
Blómakrukkan sem sést til hægri á efstu myndinni er framleidd í Skotlandi og á hana eru krotaðir stafirnir PF. Ekki kann ég nánar að rekja uppruna hennar, en mér hugnast hin draumkenndu blóm. Þau minna mig á lyfjagras.
Síðan er mér sönn ánægja að kynna norsku krukkuna grænu, sem þeytti af sér hattinum í Kolaportinu um daginn. Berhöfðuð fer hún með æðruleysisbænina fyrir hvern sem nennir að hlusta.

Bláa krukkan er Höganäs keramik.
Takið eftir tekklokinu og tekkdiskinum hér að neðan (sænskt gæðastöff).

Ég smellti því yfir og undir þessa sætu Rörstrand Sierra krukku og finnst þau bara góð saman.
Það var og. Ef ykkur vantar eitthvað af þessu í stellið, má alveg hafa samband.

Sunday, March 13, 2011

Sorgleg saga að einhverju leyti

Fór í Kolaportið í gær og keypti nautalifur og brodd, alltaf gaman í matardeildinni.
Gramsaði svolítið í leiðinni og fann þennan trévasa og hrikalega fallega græna krukku (norskt keramik), en þegar ég rölti með vasann og krukkuna til sölumannsins, rann lokið af krukkunni. Get vottað að gólfið í Kolaportinu er hart og lokið mölbrotnaði. Ég grét inní mér þegar ég sagði (hressilega) við kallinn: "Eða nei annars, ég ætla ekki að fá þessa." En auðvitað borgaði ég fyrir krukkuna, nema hvað.

Hvernig datt mönnum annars í hug að framleiða vasa úr tré? Efast um að hann haldi vatni, en á eftir að prófa. Hjálmar hélt að þetta væri einhvers konar verkfæri, meira hvað hann getur verið glámskyggn á smekklega skrautmuni.

Wednesday, March 9, 2011

Litvillingur

Í dagsljósi og við venjulega perulýsingu er þessi vasi lillablár (lavender), eða bleikur samkvæmt litgreiningu sona minna (þeir eiga ekki "lillablátt" til í orðasafni sínu).
Í athugasemdakerfinu við síðustu færslu sagði Emil að mögulega væri efni sem kallast neodymium í vasanum og að ég gæti sannreynt það með því að bera hann undir flúrljós, þá mundi hann skipta um lit og verða blár. Þetta vakti forvitni mína (vísindakvendið aldrei langt undan) og var eitthvað að spá í að drösla gripnum í vinnuna, en mundi þá eftir því að í eldhúsinu lúrir flúrpera undir hjálmi.

Þetta var fróðleiksmoli dagsins.

Tuesday, March 8, 2011

Lillablár vasi og Kjarval

Nú er ég, að því ég frómast veit, búin að skoða alla nytjamarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Góða hirðinn, Kolaportið, ABC hjálparstarf (Skútuvogi), kristniboðana (Austurveri), Samhjálp (Stangarhyl) og Hjálpræðisherinn úti á Granda. Gæti verið að gleyma einhverju, það væri þá ekki í fyrsta skipti.

Hver markaður hefur sinn sjarma. Mesta róðaríið sá ég hjá Samhjálp, en þau eru með talsvert af lagerum (sennilega úr búðum sem hafa lagt upp laupana) og því ekki með "gamalt dót" nema að nokkru leyti. Snyrtilegasti markaðurinn er hjá kristniboðunum, svakalega vel skipulagt og fínt, en verðið í hærri kantinum. Það er varla að ég nenni í Góða hirðinn lengur, þar er alltaf svo margt fólk og ekki fer ég á svona markaði til að gramsa í fólki. Mér finnst alveg vanta bílskúrs- og skottmarkaði hér á landi, vonandi lifnar yfir slíku framtaki í sumar. Nægur er áhuginn fyrir notuðu dóti, svo mikið er morgunljóst.
Í gær fann ég þennan fína Kjarval, getiði hvar...

Saturday, March 5, 2011

Blárra en blátt

Bláu könnuna gaf Ásta dóttir mín mér í afmælisgjöf, en fagurbláma þennan fann hún á fornsölu í Aberdeen.
Hér hefur kannan tyllt sér ofan á brauðboxið hennar Rósu, sem er a.m.k. hálfrar aldar gamalt. Takið eftir hvernig haldið og kannan tala saman.

Mig langar svo brjálæðislega í þessa hérna, en það kostar allt of mikið að senda þá til Íslands. Ferlega fúlt, en svona er að búa úti í ballarhafi.

Thursday, March 3, 2011

Metta


Fyrir nokkrum mánuðum keypti ég þessa skál af kristniboðunum fyrir 300 kall. Hún er nokkuð sérstök, eiginlega alveg mött. Samkvæmt þessari síðu hér er hún framleidd einhvern tímann á árabilinu 1929-1950, af Aluminia Faience í Kaupmannahöfn, sem síðar varð Royal Copenhagen.
Mér þykja strokurnar í mynstrinu mjúkar og fallegar.


Og svo er þetta skrítna tákn á botni skálarinnar, kannast einhver við það?

Held ég kalli hana Mettu. Skálina altso.

Tuesday, March 1, 2011

Doppur og strik

Þessi staukur kemur úr smiðju Royal Copenhagen/Aluminia. Hönnuður bláu doppanna og strikanna heitir Inge Lise Kofoed (f. 1939) og má sjá merkingu hennar á botni gripsins (eins og 4 með punkti). Inge Lise vann fyrir Royal Copenhagen á árunum 1976-1978. Ég held að staukurinn hljóti að vera hluti af stelli og hefði ekkert á móti því að borða af diskum með þessu fína mynstri.
Staukurinn er nokkuð hár, eða 13 sm. Hann er sagður (á netinu) vera sykurstaukur en þau sykurkorn sem eru á mínu heimili komast ekki gegnum þessi göt, og verður hann því settur í brúk sem gasalega hávaxinn saltstaukur. Aðlögun eða dauði, þannig er lífsbaráttan.